139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni um að tjáningarfrelsið er okkur öllum mjög mikilvægt. Rétturinn til að mótmæla er það að sjálfsögðu líka, enda snýr þessi tillaga ekki að því að mótmælendur úti á Austurvelli hafi ekki mátt vera þar eða gert eitthvað sem ber að fordæma. Ég skil mjög vel þá sem mótmæltu og verð að viðurkenna að það var stundum sérkennilegt að sitja norður í landi og horfa á í sjónvarpinu hvernig hlutirnir fóru fram. Ég verð líka að viðurkenna að fögnuður braust fram þegar ríkisstjórnin fór frá völdum. (Gripið fram í.)

Tillaga þessi snýr fyrst og fremst að því hvort einstakir þingmenn eða ráðherrar hafi farið út fyrir það sem getur talist eðlilegt í störfum þeirra, hvort þeir hafi farið út fyrir það — nú gefur hv. þingmaður mér merki — sem getur talist eðlilegt, sanngjarnt eða réttlátt tjáningarfrelsi þeirra. Ef einhverjir þingmenn hafa stofnað lífi og limum starfsbræðra sinna í hættu, starfsmönnum Alþingis eða lögreglunnar, finnst mér að það þurfi að skoða. Mér finnst það ekki sjálfsagt. (ÁI: Er þingmaðurinn að gefa það í skyn?)

Ef (Forseti hringir.) háttvirtur … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Má ég biðja um ró í þingsalnum.)

Ef hv. þingmaður mundi hlusta hefur hann vonandi heyrt að ég sagði að „ef“ hv. þingmenn (Gripið fram í: Þetta eru dylgjur.) hafa stofnað lífi og limum lögreglu, samstarfsmanna eða starfsfólks Alþingis í hættu finnst mér að þeir þurfi einfaldlega að svara fyrir það eins og aðrir í samfélaginu sem gera slíka hluti. (Gripið fram í.)