139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að sú þingsályktunartillaga sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti hér, og meðflutningsmenn að þeirri tillögu eru hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, er forgangsmál Framsóknarflokksins á þinginu í dag. Þingflokkur Framsóknarflokksins gat valið þingmál til að taka til umræðu á þinginu í dag, eitthvað sem stóð hjarta þeirra nær, eitthvað sem þau töldu mikilvægara mál en önnur að ræða hér í þessum sal á þessum ágæta degi. Og af öllum málum sem að okkur steðja og um allt það sem við höfum um að ræða, um öll þau verkefni sem við er að glíma frá degi til dags í þessum þingsal, völdu þau þetta mál. Þetta var forgangsmálið. Þetta var akútmálið. Það var fullkomin nauðsyn, að mati þingflokks Framsóknarflokksins og flutningsmanna, að þetta mál yrði flutt og rekið hér nánast eins og dómsmál, eins og ákæra yfir þingmönnum sem þeir þó þora ekki að nefna á nafn.

Ég fór yfir það áðan, virðulegi forseti, og hvatti hv. þingmann og flutningsmann tillögunnar, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, til að safna kjarki þar sem hann situr í sæti sínu til að koma upp í ræðustól og nefna þá þingmenn á nafn, nefna þá aðila á nafn fullum fetum, sem hann vill að þingið beini rannsókn sinni að. Með dylgjum og rógburði í greinargerð tillögunnar er gefið í skyn við hverja er átt.

Ég vitnaði til þess áðan, í andsvari við hv. þingmann, að í greinargerðinni er byggt á blaðagreinum eftir Gylfa Guðjónsson, fyrrverandi lögreglumann, þar sem hann nefnir þáverandi heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, það ætti nú að vera auðvelt fyrir hv. þingmann að fletta upp á því hverjir þeir voru á þeim tíma. Ekki ætla ég að efast um að viðkomandi lögreglumaður hafi skrifað þetta í grein í Morgunblaðið. Hv. þingmenn og tillöguflutningsmenn, Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, vitna sömuleiðis í viðmælendur í Morgunblaðinu þar sem talað er um háttsemi þingmanns með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Í stað þess að fylgja tilmælum til þingmanna og starfsfólks Alþingis um að halda sig frá gluggum hússins hafi hún“ — þessi tiltekni þingmaður —„staðið út við glugga, talað í síma, og sent kveðju með því að kreppa hnefann út í fjöldann.“

Þetta er meginrökstuðningur tillögunnar í greinargerðinni.

Hver er „hún“ sem stóð með krepptan hnefann? Hvernig stendur á því að það er ekki sagt úr þessum ræðustól? Hvaða aumingjaskapur er það af hv. þingmönnum að fara fram með þessum hætti, tillöguflutningsmönnum? Hvar eru nöfnin? Hver var fyrrverandi heilbrigðisráðherra? Hver var fyrrverandi fjármálaráðherra? Hvernig stendur á því að menn eru svo kjarklitlir sem þeir vitna sjálfir um í ræðuhöldum sínum og tillöguflutningi?

Áfram er haldið í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Vart verður hjá því komist að draga þær ályktanir af framangreindu að stórkostleg hætta hafi skapast í búsáhaldabyltingunni og að ákveðnir alþingismenn“ — ekki einhverjir alþingismenn, heldur ákveðnir alþingismenn — „hafi veitt liðsinni sitt eða hvatt til verka sem sköpuðu mikla hættu.“

Virðulegi forseti. Það er varla hægt að biðja um minna í þessari umræðu en að óska eftir því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins og flutningsmaður þessarar tillögu, nefni þá ákveðnu alþingismenn sem þarna sköpuðu gríðarlega hættu, mikla hættu. Í hverju fólst hættan sem þessir ákveðnu þingmenn skópu á þessum haustdögum 2008 eða í byrjun árs 2009? Í hverju fólst hættan? Hver var í hættu? Var þingið í hættu? Var lýðræðið í hættu? Var þingræðið í hættu?

Áfram er haldið í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Fara verður yfir hvort þingmenn og ráðherrar hafi farið út fyrir það sem talist getur réttur þeirra til að tjá sig og um leið hvort tilefni sé til að bregðast við framgöngu þessara aðila.“ — Þessara aðila. Enn er talað í dylgjutón og rógburðarstíl um „ákveðna þingmenn“ og „þessa aðila“.

Hvert er mat hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar á tjáningarfrelsi almennings og á tjáningarfrelsi þingmanna ef hv. þingmaður telur að fara verði yfir það hvort þeir hafi farið út fyrir þann rétt sem þeir hafa til að tjá sig? Hvaða rétt hafa þingmenn til að tjá sig? Ég óska eftir því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson útskýri það hér, fylgi greinargerðinni betur eftir en hingað til hefur verið gert, þannig að það verði þá fært í þingtíðindi hvaða rétt hann telur að við þingmenn höfum til að tjá okkur og hvenær við förum þá út fyrir þann rétt svo rækilega að setja þurfi á fót lögreglurannsókn af því tilefni eins og hann telur að hér þurfi að gera.

Áfram er haldið, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Verði talið að þingmenn eða ráðherra hafi gerst brotlegir við lög hljóta Alþingi, kjósendur og viðeigandi stjórnvöld að bregðast við því með þeim hætti sem eðlilegt þykir.“

Enn spyr ég, virðulegi forseti: Hvað er átt við með þessu? Getur hv. þingmaður og 1. flutningsmaður tillögunnar svarað því hér á eftir, eftir að hann er búinn að upplýsa hvaða tiltekna þingmenn hann á við í þessari tillögu sinni, sem hann vill draga fyrir dóm? Hvað eru eðlileg viðbrögð við því ef þingmenn fara út fyrir einhver mörk um eðlilegt tjáningarfrelsi sem er algjörlega óskilgreint í þessari tillögu? Hver eru eðlileg viðbrögð? Hver eru viðeigandi stjórnvöld sem taka á því ef þingmenn tjá sig út fyrir einhver eðlileg mörk að mati Framsóknarflokksins? Hvernig á að bregðast við því? Er hægt að fá nánari útskýringu á þessari nýju hugmyndafræði sem þarna birtist?

Að lokum segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Verður þó vart hjá því komist að gera ráð fyrir að rannsóknarnefndin sem lagt er til að verði skipuð vísi þeim málum til lögreglu eða annars ákæruvalds sem þar eiga heima.“

Enn er spurt, virðulegi forseti: Hvert er það annað ákæruvald? Það hlýtur þá að vera eitthvað mjög sérstakt ákæruvald sem á þá að rétta yfir tilteknum ákveðnum þingmönnum, líklega konu, sem hefur staðið með krepptan hnefa og talað í síma. Hvaða tiltekna annað ákæruvald á að rétta yfir þingmönnum sem ekki má nefna á nafn — ónafngreindum þingmönnum, „tilteknum“, „ákveðnum“, „þessum þingmönnum“, eins og sagt er í greinargerðinni, sem ber öll þess merki að um dylgjur og rógburð sé að ræða. Ég verð að viðurkenna að í ljósi þeirra ummæla sem féllu hér í ræðustól í gær, og ég rifjaði upp hér áðan, úr munni hv. þingmanns, átti ég alls ekki von á því að slíkt þingmál yrði flutt í dag af honum sjálfum. Réttur sólarhringur er liðinn frá því hv. þingmaður stendur hér í ræðustól með alla geislabaugana upp af sér og neðan, ræðandi um það að menn eigi nú að vera pínukurteisir hver við annan og það eigi nú að fara að huga betur að þessu, forseti verði nú að fara að taka á því hvernig þingmenn tala hver til annars og forustumenn flokkanna sömuleiðis. Og hann er í forustusveit Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson.

Ég spyr um kjark. Ég ítreka það hér og geng eftir því að hv. þingmaður komi í þennan ræðustól og nefni þá tilteknu þingmenn sem um er að ræða. Hver er þessi „hún“? Hverjir eru „þessir þingmenn“ sem hv. þingmanni verður svo tíðrætt um í greinargerðinni, en þorir ekki, vill ekki eða getur ekki nefnt á nafn? Hvers vegna er ekki gengið hreint til verks? Af hverju talar fólk ekki skýrt? Af hverju eru þingmenn ekki skýrari í máli en hér er? Hvers vegna þessar dylgjur? Hvers vegna þessi rógburður? Og hvers vegna þessi illmælgi gegn tilteknum þingmönnum, sem gefið er í skyn hverjir gætu verið en enginn hefur kjark til að nefna, og allra síst þessir þrír flutningsmenn, hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, (Forseti hringir.) Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson?