139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Haustið 2008 varð efnahagshrun á Íslandi. Hrunið var afleiðing ríkjandi efnahagsstefnu undanfarinna tveggja áratuga sem hafði þróast og var á góðri leið með að verða einhver sú harðasta nýfrjálshyggjustefna sem við þekkjum til hér á norðurhveli jarðar, stefna sem var fastar fylgt af íslenskum ríkisstjórnum en ríkisstjórnum nokkurs annars lands. Þetta efnahagshrun, atvinnumissir, skuldafangelsi, stórfelld eignatöp, skapaði óvissu og ótta í huga almennings, einkum og sér í lagi vegna þess að þáverandi ríkisstjórn sýndi enga tilburði í þá átt að axla ábyrgð á því sem gerst hafði.

Þetta ástand varð til þess að þúsundir Íslendinga flykktust út á torg víðs vegar um landið til að að halda á lofti þeirri einföldu og sjálfsögðu kröfu að ríkisstjórnin axlaði ábyrgð. Það er og verður réttur allra að mótmæla stjórnvöldum, svo fremi að það sé gert án ofbeldis gagnvart öðru fólki, alltaf þegar mönnum þykir ástæða til, hversu ólíkar sem ástæður geta verið. Í því efni tek ég undir það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði áðan.

Ég var ein þeirra sem nýttu sér þennan sjálfsagða rétt og ég tel ekki, hæstv. forseti, að þingseta eða önnur störf eigi að hindra menn í því að segja hug sinn, taka af þeim tjáningarfrelsið, taka af þeim frelsið til að sýna sinn hug og mótmæla. Ég tók mér stöðu með þeim þúsundum sem það gerðu, körlum, konum, ungum, öldnum. En það tók ríkisstjórnina sem þá sat og fulltrúa hennar meira en þrjá mánuði að heyra kröfur fólksins og átta sig á þeim þunga sem að baki bjó. Reyndar eru þeir til sem enn hafa ekki áttað sig á því.

Það var andvaraleysi þáverandi ríkisstjórnar sem braut þeirri ólgu sem bjó í brjósti almennings leið út í janúarmánuði 2009 með miklum hávaða, taktföstum hávaða, en sem betur fer með litlu ofbeldi. Það var þáverandi ríkisstjórn sem mánuðum saman neitaði að hlýða á fólkið en stillti þess í stað miklum fjölda lögreglukvenna og lögreglukarla upp á milli sín og almennings í þá ömurlegu stöðu að standa gegn almenningi.

Það tekur mig og ég veit alla þingmenn sárt að lögreglukonur og lögreglukarlar, mótmælendur og aðrir hafi orðið fyrir slysum í þessum mótmælum í búsáhaldabyltingunni veturinn 2008–2009. En ábyrgðin, herra forseti, liggur hvorki hjá mér, mótmælendum né lögreglunni. Með nokkrum undantekningum má segja að framganga bæði lögreglunnar og mótmælenda hafi verið þeim til sóma. Ábyrgðin á því sem út af bar í þeim efnum liggur hjá þeim ráðamönnum sem virtu ekki viðlits kröfur fólksins í marga mánuði og gerðu sér enga grein fyrir því sem að baki mótmælunum bjó.

Þátttaka mín í þessum mótmælum, herra forseti, hefur verið gerð að tilefni til umræðu á hinu háa Alþingi sem og á öðrum vettvangi allt frá því að vanhæf ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum 1. febrúar 2009. Stóryrtum ásökunum hefur verið beint í minn garð af „sumum“ hv. þingmönnum sem hér sitja í salnum og birt þannig á bæði vefmiðlum og í prentmiðlum. Ásakanir sem hafa verið uppi um það að ég hafi með einhverjum hætti stýrt mótmælendum eða eggjað þá til árása á Alþingishúsið, eins og það var svo smekklega kallað, eða aðrar opinberar byggingar eru fjarstæðukenndar og lýsa best þeim sem þannig mæla. Þessi ummæli sýna hins vegar fullkomna lítilsvirðingu þeirra sem svo taka til orða og jafnvel fyrirlitningu á þeim þúsundum Íslendinga sem risu upp og létu í sér heyra, fullkomið virðingarleysi gagnvart öllu því fólki. Að halda því fram að sú sem hér stendur eða aðrir nafngreindir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi stjórnað tilfinningum og mótmælum og aðgerðum þeirra þúsunda sem hröktu hér vanhæfa ríkisstjórn frá völdum er lítilsvirðing við þessa þjóð, herra forseti.

Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í mótmælum búsáhaldabyltingarinnar og reyndar mótmælum alla tíð, hvort sem þeim hefur verið beint gegn þáverandi ríkisstjórnum eða óréttlæti á þeirra vegum. Að krefja einhvern í lýðræðissamfélagi um afsökun á því að nýta sér rétt sinn til mótmæla er bein tilraun til kúgunar. Ég sit ekki undir því.

Þegar vanhæf ríkisstjórn hrökklaðist hér frá völdum brást valdastéttin á Íslandi ókvæða við. Fyrst var hún hrædd, svo var hún reið. Hún var reið brottrekstri ríkisstjórnarinnar úr Stjórnarráði Íslands. Þetta var eitthvað sem valdastéttin á Íslandi taldi sig bara eiga. (Gripið fram í: Hvaða stétt tilheyrir þú í dag?) Hv. þm. Jón Gunnarsson, ég tilheyri ekki valdastétt Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessu landi, (Gripið fram í.) Nei, það geri ég ekki. En það eru aðrir hér sem gera það. (Gripið fram í.) Viðbrögð valdastéttarinnar eftir að … (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Má ég biðja um ró í þingsalnum og að gefa ræðumanni möguleika á að flytja ræðu sína úr ræðustól.)

Takk fyrir það, herra forseti. Eitt af því sem einkenndi viðbrögð valdastéttarinnar á Íslandi í búsáhaldabyltingunni og í eftirleiknum voru þær dylgjur sem ég nefndi áðan um að einstaka þingmenn og jafnvel þingflokkur Vinstri grænna hefði stjórnað atburðum hér í landinu og þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, réðst af sérstakri heift í ræðu og í riti á þá sem hér stendur en einnig á þingmennina Atla Gíslason og Steingrím J. Sigfússon. Öll svöruðum við nokkuð fyrir okkur en höfðum ekki sama aðgang til að mynda að fréttastofu Ríkisútvarps og öðrum miðlum, og ég tala nú ekki um Moggatötur, eins og dómsmálaráðherra þáverandi.

Mig langar, herra forseti, áður en ég lýk fyrstu ræðu minni, að hlaupa hér á ályktun þingflokks Vinstri grænna sem var gerð vegna þessara ásakana Björns Bjarnasonar sem þar eru sagðar órökstuddar í garð einstakra þingmanna og gerð svofelld samþykkt, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri grænna fordæmir harðlega hvers kyns ofbeldi, sama hver í hlut á. Ofbeldi í garð lögreglunnar er aldrei og undir engum kringumstæðum réttlætanlegt.

Friðsamleg mótmæli og andóf eru mikilvægir hlekkir virkrar þátttöku í lýðræðisríki og það er ekki að undra að fólk rísi nú upp gegn því órétti og ranglæti sem hefur fengið að viðgangast í samfélaginu. Slík mótmæli beinast ekki gegn góðri löggæslu heldur gegn vanhæfum stjórnvöldum og þeim sem ábyrgðina bera.

Að mati þingflokks VG hefur lögreglan almennt sýnt aðdáunarverða þolinmæði og umburðarlyndi sem hefur komið í veg fyrir frekara ofbeldi. Fyrir það á lögreglan hrós skilið og sama gildir um mótmælendur sem af hugrekki slógu skjaldborg um lögreglumenn til að verja þá gegn árásum. Samtakamátturinn var þannig virkjaður til að útiloka frekara ofbeldi og slíkt vekur vonir um að okkur Íslendingum takist að vinna okkur út úr aðsteðjandi erfiðleikum með friðsamlegri samstöðu.

Tilraunir Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til að slá ryki í augu fólks með yfirlýsingum eins og þeirri að tilteknir þingmenn VG hafi „beinlínis veist að lögreglunni“ eru veruleikafirrt og eiga sér enga stoð í sannleikanum. Það er ábyrgðarhluti að yfirmaður dómsmála í landinu skuli viðhafa slíkar dylgjur og blekkingar í pólitískum tilgangi.

Gríðarlegt álag er á hinni almennu löggæslu í landinu sem hefur mátt þola mikinn niðurskurð og erfiðar vinnuaðstæður á síðustu árum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendir þeim baráttukveðjur og minnir á að það er hlutverk okkar allra að vernda góða löggæslu á sama hátt og hún verndar okkur.“

Þetta voru viðbrögð Vinstri grænna við dylgjum Björns Bjarnasonar á sínum tíma.

Nú hefur hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson (Forseti hringir.) borið þær dylgjur hér inn í þingsali undir yfirskyni rannsóknar. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég hyggst ræða það ítarlega hér fram eftir fundi.