139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu er ansi miklar umbúðir um lítið mál og mun ég koma frekar að því í ræðu minni á eftir. Það er nefnilega þannig að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafði verið eitthvað um hálft ár að föndra við að skrifa þessa tillögu, frá því í febrúar 2010 þar til hún var lögð fram í nóvember 2010, og það er farið út um víðan völl. Ef maður á að taka mark á þessu, taka þetta alvarlega, ætti að safna hér skýrslum um símanotkun 63 þingmanna og þar af 12 ráðherra frá október 2008 til febrúar 2009.

Þetta er náttúrlega ekki það sem hv. þingmaður er að slægjast eftir. En hann hefur ekki enn þá þorað að nefna nöfnin sem hann vill að séu rannsökuð jafnvel þótt ítrekað hafi verið gengið eftir því hér það sem af lifir þessari umræðu og verður væntanlega gert áfram.

Ég tel, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, að það eigi ekki að taka mark á þessum pappír, að það sé ástæðulaust að efna til nornaveiða innan húss eða utan hér við Austurvöll. Við höfum fordæmin, við höfum mál níumenninganna og við skulum læra af þeim.