139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Ég þakka fyrir þessi svör. (Forseti hringir.) Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör.

Ég velti fyrir mér, mér finnst svo furðulegt að þetta mál sé tekið á dagskrá. Furðulegt miðað við oft og tíðum ágæt mál sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram að þetta sé forgangsmál til að leggja fram sem sennilega síðasta þingmannamál fyrir sumarhlé. Mig langaði að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvað hún haldi að liggi að baki þessarar furðulegu ályktunar þar sem verið er að fara fram á hluti sem ég hefði bara haldið að ættu heima hjá Stasi eða jafnvel núverandi Bandaríkjaforseta. Ég er eiginlega orðlaus yfir því að hv. þingmaður, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, skuli leggja svona fram. Mér finnst þetta stórfurðulegt því að ég hefði einhvern veginn ekki trúað því að þetta væri í hans anda.

Því langaði mig að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvað hún telji að liggi að baki þessarar furðulegu tilraunar til njósna um þingmenn og nornaveiða um m.a. hana sjálfa.