139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:51]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi að ég gæti sagt að ég tryði því að það væri eðlileg forvitni manns sem var við kaupfélagsstörf norður í landi meðan atburðir gerðust hér fyrir sunnan en ég er ansi hrædd um að svo hafi ekki verið. (Gripið fram í.) Já, í sveitarstjórn, menn hafa ratað úr kaupfélögum í sveitarstjórnir fyrir Framsóknarflokkinn, það er rétt. (Gripið fram í: Og af bensínstöðvum …) Og af bensínstöðvum með tilhlutan kaupfélaga inn í sveitarstjórnir fyrir Framsóknarflokkinn eins og menn þekkja.

Ég verð að segja eins og er að ég var alveg undrandi á þessu vali þingflokks Framsóknarflokksins. En ég er kannski enn þá meira undrandi á því að þeir tveir hv. þingmenn sem eru meðflutningsmenn hv. þingflokksformanns skuli ekki vera í salnum til að styðja sinn mann og halda hér uppi málafylgju með honum og taka svolítið vel á þeim þingmannsræflum sem voru í það minnsta á þingi þennan tíma. Það er erfiðara að ná í þá sem eru komnir utan þings og í skjól.

Nei, hv. þingmaður, ég veit ekki hvað býr hér að baki en það er athyglisvert að í gær hvatti hv. þingmaður þingheim og forustu þingflokkanna sérstaklega til að reyna að koma í veg fyrir það að menn hefðu uppi stór orð um aðra þingmenn, kölluðu þá illum nöfnum, jafnvel niðrandi orðum sem bæru vott um ákveðna fyrirlitningu. Ég verð að segja að mér finnst ekki alveg samhljómur í þessu en það búa nú tveir menn í mörgum og það kann að vera skýringin.