139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þessi sköruglega ræða er nú efni í meira en andsvör en ég get þó ekki gert annað en benda á að Héraðsdómur Reykjavíkur sjálfur hefur þegar komið í andsvar fyrir fram við þessa ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og hrakið þá staðhæfingu hans að hér hafi nokkurn tíma verið um árás á Alþingi að ræða. Því máli var hent með hlátrasköllum út úr Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir nokkrum vikum. Það er rétt að hv. þm. Jón Gunnarsson fari að lesa blöðin og kynna sér tíðindi sem hér hafa gerst eftir að ríkisstjórn hans fór frá, hrökklaðist frá á sínum tíma.

Hins vegar kom hv. þm. Jón Gunnarsson í lok ræðu sinnar með þau svör eða eitthvað af þeim svörum, virtist vera, sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þorði ekki að koma með þó að hann væri þráspurður um þau vegna þess að það bendir allt til þess að herra A, sem heitir ekki herra X heldur herra A, sé hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég spyr hann að því: Ert þú, Jón Gunnarsson, herra A?