139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara greint frá því sem ég varð vitni að á göngum þingsins. Ég hef greint frá því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi í mín eyru og reyndar annars þingmanns … (Gripið fram í: Hver var það, …?) Það kemur þá bara í ljós í þeirri rannsókn sem þarf að fara fram um þetta mál. Ég er bara að vitna í að hún var með alvarlegar athugasemdir um störf lögreglunnar hér á vettvangi. Hún var með athugasemdir um hvernig lögreglan beitti sér þegar hún var að handtaka hér fólk, mótmælendur hér úti (Gripið fram í.) og taldi Alþingishúsið í mikilli hættu. Það hefur komið fram hjá lögreglumönnum í umræðunni að þeir töldu Alþingishúsið og Alþingi í mikilli hættu. Hv. þm. Álfheiði Ingadóttur þótti það allt í lagi, það sagði hún sjálf í mín eyru, að þessum mótmælendum yrði hleypt inn í þetta hús. Hér væru bara dauðir hlutir, (Forseti hringir.) hvort það skipti einhverju máli.