139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu bera vitni í þessu máli ef ég yrði kallaður til í því alveg eins og öllum öðrum málum sem ég væri beðinn um að bera vitni í ef ég hefði orðið vitni að einhverju sem ætti erindi inn í það mál, og ég mundi segja satt og rétt frá. Það er auðvitað grundvallaratriði. Ég á ekki von á öðru en að allir sem kallaðir yrðu til vitnis í þessu máli og öðrum greini satt og rétt frá því sem þeir hafa heyrt eða orðið vitni að, heyrt, séð eða orðið vitni að. Dómskerfi okkar byggir á þessu og að sjálfsögðu mundi ég ekki skorast undan.

Ég átta mig ekki á því hve mikið er gert úr því hér að hv. flutningsmenn þessarar tillögu skuli ekki nefna einhver nöfn sérstaklega til sögunnar. Það er verið að óska eftir því að þetta verði rannsakað og ég held að það væri þá kjörið tækifæri (Forseti hringir.) fyrir þá hv. þingmenn sem ég hef nefnt til sögunnar og mögulega aðra að hreinsa sig af þeim áburði (Forseti hringir.) ef þetta mál yrði skoðað ofan í kjölinn.