139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Ég spurði sérstaklega um þá fundargerð sem greinargerðin fjallar einkum um og ég fékk engin svör frá framsögumanni um málið og frumvarpsflytjandanum hinum fyrsta, hv. þingmanni. Sá sem getur tjáð sig um þetta er hæstv. forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, nema sá sem gegnir stöðu forseta í stólnum geti svarað til um þá fundargerð, en sá sem hér talar sem forseti getur ekki borið af sér sakir eða skýrt fyrir okkur beinar tilvitnanir í mál forseta þingsins, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Það getur forsetinn einn gert. Þess vegna er eðlilegt að forsetinn sé viðstaddur og henni gefið færi á að taka þátt í umræðunni og fjalla um þau álitaefni sem hér hafa komið upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)