139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa ósk hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Ég hef hlýtt á umræðuna í einn og hálfan tíma eða svo og hv. 1. flutningsmaður þessarar tillögu er ófáanlegur til að upplýsa við hverja er átt þar sem stendur í hornklofum A og B í greinargerð með tillögunni. Eini aðilinn sem getur upplýst það og gert fundargerð forsætisnefndar opinbera, herra forseti, er forseti Alþingis, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Mér býður í grun að nafn mitt hafi verið til umræðu á þessum forsætisnefndarfundi. Það hef ég lesið í víðfrægum pistlum hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem virðist þá hafa vitað eitthvað meira en hann segist vita hér og nú. Ég óska eindregið eftir því að forseti Alþingis komi hingað og svari fyrir þessa fundargerð.