139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst allt að því að hæstv. forseti eigi að gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, hvernig hún talar um fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, (Gripið fram í.) talar um kaldastríðskarl, ég efast um að það teljist málefnaleg umræða. Við höfum, virðulegi forseti, reynt að hafa þessa umræðu málefnalega og ég tel að ég hafi flutt mitt mál málefnalega. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar um að það sé dásamlegt að við skulum vera komin í þann gír að vilja rannsaka og rannsaka. Það var enginn sem mælti á móti því að fara í þá stóru rannsókn sem skýrsla Alþingis byggist á og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis byggist á. Það voru allir sem studdu það að málin yrðu skoðuð ofan í kjölinn.

Við höfum líka lagt til að það verði skoðað hvernig staðið hefur verið að Icesave-málinu. Við höfum ekki komist áfram með það mál, virðulegi forseti. Það hefur verið stoppað af ríkisstjórnarflokkunum. Þeir eru ekki tilbúnir í að skoða eigin verk. Það er vandamálið. Það má ekki skoða þeirra verk, bara annarra. Það á að fara að skoða Íraksstríðið sem tekin var ákvörðun um fyrir átta árum þó að unnar hafi verið um það ítarlegar skýrslur.

Við getum aðeins velt fyrir okkur málsmeðferðinni gagnvart fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, eða hversu málefnaleg sú ómerkilega atlaga er að þeim einstaklingi og hvernig afstaða þingflokka breyttist eftir því hverjir áttu í hlut. Var það málefnaleg meðferð? Hver var tilgangurinn og hver var þá tilurðin með því sem hv. þingmaður vitnaði til?