139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja eins og kemur fram í textanum með greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þar sem mögulega kann að vera um að ræða athafnir sem varðað geta reglur laga um ráðherraábyrgð …“

Ég vil bara segja það í hreinskilni að það er kannski meira til að hafa vaðið fyrir neðan sig, hafa fat undir lekanum, að þetta sé þarna frekar en að ég sé að ásaka einhvern ráðherra sem sat á þessum tíma um eitthvað ákveðið. (Gripið fram í.) Mig langar hins vegar vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um áherslumál og í ljósi þess að Samfylkingin ákvað að tollar af rafbókum skyldi vera þeirra áherslumál, sem ég reyndar fagna og er sammála því máli sem var flutt, áherslan er gjöld á rafbókum. Til að upplýsa hv. þingmenn um hvernig það bar að að þessi tillaga var sett á dagskrá þá er hún með lægsta númer á þeim málum sem framsóknarmenn hafa flutt. Síðan er annað að sitt sýnist hverjum og vegna þess að það var kannski ekki alveg einhugur um hvaða mál ætti að fara voru allir sammála um að lægsta númer skyldi gilda. Er þetta ekki í anda þeirrar lýðræðisástar sem margir tala um? Ég spyr. En í ljósi þess að menn eru að vega hér og meta hvað er mikilvægt og ekki mikilvægt velti ég fyrir mér hvort sé mikilvægara að lækka gjöld á rafbókum eða komast að því hvort þingmenn eða einhverjir aðrir hafi hugsanlega verið valdir að eða tengist því að einhverjir hafi meitt sig eða slasast. (Gripið fram í.) Þetta er rannsókn. (Gripið fram í: Þetta eru dylgjur.) Ég sagði ef, hv. þingmaður. Þetta eru ekki dylgjur. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (KLM): Ró í þingsalnum.)

Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, að þetta sé með þeim hætti. [Frammíköll í þingsal.] En af hverju rannsökum við það ekki? Hvað hafa menn að fela? (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn í salnum að halda ró sinni og gefa þeim ræðumanni sem er í ræðustól tíma til að flytja ræðu sína og það gildir um alla sem hér eru.)