139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

meðferð einkamála.

568. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála um gjafsókn. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Siv Friðleifsdóttir, Þór Saari og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Þetta frumvarp var fyrst flutt á 137. löggjafarþingi en það miðar að því að auka möguleika almennings á gjafsókn óháð fjárhagsstöðu umsækjenda. Málið náði því miður ekki fram að ganga og er endurflutt nú. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 126. gr. laga um meðferð einkamála um gjafsókn. Einnig felur það í sér reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar.

Herra forseti. Þegar einkamálalögin voru samþykkt 1991 voru skilyrði gjafsóknar samkvæmt 126. gr. laganna þau sömu og nú er lagt til að verði, þ.e. að gjafsókn yrði aðeins veitt ef nægilegt tilefni væri til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða væri fullnægt: Í fyrsta lagi að efnahag umsækjenda væri þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Í öðru lagi að úrlausn máls hefði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni umsækjanda.

Á 131. löggjafarþingi var þessum ákvæðum breytt. Sú breyting var þá gerð að fellt var brott skilyrði gjafsóknar samkvæmt síðari liðnum, b-lið 1. mgr. 126. gr., með leyfi forseta:

„að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Ákvæðið hafði þá verið í lögunum í 12 ár án nokkurra vandkvæða í framkvæmd. Ástæða lagabreytingarinnar var sögð sú að ákvæðið væri afar víðtækt og ekki forsvaranlegt að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.

Sú breyting sem gerð varð 2005 á ákvæðum um gjafsókn, með núgildandi ákvæðum, þrengir hins vegar verulega að möguleikum almennings til þess að gæta réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir, herra forseti, eru í andstöðu við hefðir sem hafa verið að þróast í öðrum lýðræðisríkjum. Með frumvarpinu er því lagt til að fella umrætt skilyrði aftur inn í ákvæðið. Sú rýmkun mun fela í sér að gjafsókn verður möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtingu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál sem varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál sem varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn samkvæmt þessum lið, b-lið 1. mgr. 26. gr., verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.

Herra forseti. Gert er ráð fyrir að áfram verði inni reglugerðarheimild til að kveða nánar á um skilyrði málsóknar. Á grundvelli laga nr. 75, sem ég vitnaði áður til, gaf dómsmálaráðherra út reglugerð þar sem kveðið var nánar á um skilyrði gjafsóknar. Verði frumvarpið að lögum þarf því að gera breytingar á þeirri grein reglugerðarinnar sem fjallar um mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í samræmi við rýmkun á þeim heimildum sem hér er lögð til.

Herra forseti. Nú er það svo að við höfum staðið frammi fyrir gríðarlega erfiðum verkefnum hvað varðar fjárhag ríkissjóðs og það hefur verið gríðarlega mikill niðurskurður, m.a. hvað varðar gjafsóknina. En ég tel þrátt fyrir allt, herra forseti, að þrátt fyrir þennan mikla niðurskurð sé fullt tilefni til að taka þessa slæmu þrengingu úr lögunum, þó svo að fjárveiting til gjafsóknar sé takmörkuð, að þá væri um að ræða forgangsröðun þar sem tekið væri líka tillit til mála sem varða annaðhvort einstaklinginn gríðarlega miklu eða almannaheill. Ég tel nauðsynlegt að hv. allsherjarnefnd kanni hvernig fjárveitingum til gjafsóknar hefur verið háttað á undanförnum árum. Ég óttast að það hafi verið skorið talsvert niður í því, en við erum kannski að komast út úr þessum niðurskurðartíma og ég vil leyfa mér að vænta þess að hægt verði að bæta þar frekar í en ekki. En þótt það sé ekki hægt tel ég nauðsynlegt að gera þessa breytingu jafnvel þótt það kunni að kosta einhverja breytingu á forgangsröðun innan nefndarinnar.

Ég vil líka nefna það, herra forseti, í tilefni af fyrirspurn sem hv. þm. Eygló Harðardóttir, sem er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps, bar fram til hæstv. innanríkisráðherra kom fram í máli ráðherra að hann teldi rétt að skoða þessi mál en það hefur hins vegar ekki komið fram frumvarp af hálfu ráðuneytisins og því teljum við eðlilegt að endurflytja þetta mál nú. Ég sé, herra forseti, að það er rangt sem segir hér að frumvarpið hafi verið flutt á 137. löggjafarþingi — jú, það er rétt en þá var það endurflutt, því að það var fyrst flutt á 136. þingi.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.