139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

meðferð einkamála.

568. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get auðvitað ekki svarað því svo tæmandi sé hverju þetta mundi breyta, hvaða hópar það væru helst eða einstaklingar sem gætu sótt um gjafsókn vegna þessa. Það ætti að vera einfalt fyrir hv. allsherjarnefnd að skoða vegna þess að þetta ákvæði var í lögunum í um 12 ár þar til það var fellt brott 2005. En það er sérstaklega það sem varðar alla einstaklinga og almenning miklu, þar eru eins og ég nefndi til að mynda prófmál sem varða rétt einstaklingsins gagnvart stjórnvöldum og það er mjög erfitt fyrir einstaklinga að sækja slík mál og það getur verið dýrt. Ég nefndi nokkur dæmi um það, læknamistök, friðhelgi einkalífs, almenn mannréttindi og eins sem varðar atvinnuréttindi, bætur fyrir missi framfæranda og reyndar líka varanlega örorku.

Fjárveiting til gjafsóknar jókst verulega framan af þessari öld, upp úr aldamótum, en eftir að þessu ákvæði var breytt árið 2005 dró úr fjárveitingum til þessa málaflokks og það hefur enn verið skorið niður að ég óttast. Ég tel því mjög mikilvægt að þetta verði kortlagt og ég tek undir mál hv. þingmanns um að það er brýnt að hv. allsherjarnefnd afgreiði þetta, ef ekki fyrir vorið þá á septemberþingi til að þetta megi koma inn í fjárlög fyrir árið 2012.