139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að greina frá því að síðasta árið hefur verið annasamt hjá utanríkisþjónustunni. Það er ítarlega rakið í þessari tæplega hundrað blaðsíðna skýrslu sem hér liggur fyrir. Ástæðan fyrir önnum ráðuneytisins hefur ekki síst verið sú að fyrir utan hefðbundin verkefni hefur hún axlað ný verkefni, m.a. vegna Icesave, samþykktar Alþingis um umsókn að Evrópusambandinu og nýrra málaflokka eins og norðurslóða sem núna eru skilgreindar sem forgangsmál.

Ég get glatt alþingismenn með því að við höfum líka beitt okkur sterkar í málefnum einstaklinga en áður, ekki síst fyrir atbeina hv. þingmanna sem ég þakka fyrir að halda mér við efnið. Þar má nefna til dæmis kínverska andófsmenn og tvímenningana í Malaví sem dæmdir voru í 14 ára fangelsi vegna kynhneigðar en þeim var sleppt vegna mótmæla sem brutust út alþjóðlega og sem Íslendingar tóku líka þátt í. Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri til að þakka óbreyttum borgurum fyrir að hafa haldið mér á tánum í ýmsum málum, t.d. vegna írönsku konunnar Ashtiani. Í orðastað þeirra tók ég upp dauðadóm yfir henni á allsherjarþinginu og bauð síðar í viðræðum við Íran að veita henni hæli hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég hef kostað kapps um að hrinda kerfisbundið í framkvæmd þeim áherslum sem ríkisstjórnin kynnti í maí 2009. Í fyrsta lagi legg ég áherslu á hraða framvindu í málefnum norðurslóða og þar þakka ég líka Alþingi sérstaklega góða samvinnu.

Norðurskautsráðið sem nú má segja að sé loksins orðið fullorðið hélt sögulegan fund í Nuuk á Grænlandi í síðustu viku. Þar náðust, frá íslenskum sjónarhóli, þrír mikilvægir áfangar. Í fyrsta lagi var staðfestur fyrsti lagalega bindandi samningurinn um leit og björgun á norðurslóðum. Hann er okkur Íslendingum sérlega mikilvægur, ekki aðeins vegna þess að siglingar um pólinn hefjast fyrr en margir ætla heldur líka vegna þess að hann á að geta gefið okkur Íslendingum viðspyrnu til að koma hér upp miðstöð á sviði alþjóðlegrar björgunar. Í öðru lagi var samþykkt að nota þennan samning sem fordæmi, t.d. fyrir nýjum samningi um varnir gegn olíuslysum. Í þriðja lagi undirstrikuðu svo ríkin átta að hafréttarsáttmálinn yrði notaður til að leysa úr ágreiningsefnum sem upp kunna að koma. Það eyðir lagalegu tómarúmi um lausn deilna, t.d. um mörk á hafsbotni og þar með auðlindir. Sú ákvörðun dregur úr líkum á því að spenna byggist upp í Norðurhöfum og allir þessir þættir ríma við stefnuna sem Alþingi samþykkti.

Alþingi og ríkisstjórn voru líka sammála um að treysta þá akademísku kjarna sem hér á landi sinna rannsóknum á norðurslóðum. Vegna þess að ég sé hér uppi í galleríinu okkar góða vin, sendiherra Norðmanna, er ánægjulegt að geta greint frá því að sá mikilvægi áfangi hefur náðst að við Íslendingar eigum nú í formlegum viðræðum við frændur okkar Norðmenn um kröftugt samstarf með Akureyri í brennidepli sem óhikað má telja að verði þessum málaflokki og hinu nýja fræðasviði mikilvæg lyftistöng. Við utanríkisráðherra Noregs, Íslandsvinurinn Jonas Gahr Støre, stefnum að því að festa þetta í samning og undirrita síðar á þessu ári þegar hann heimsækir okkur.

Í mínum huga er stefna okkar um norðurslóðir nátengd loftslagsstefnunni. Þar þurfum við Íslendingar að taka enn sterkari forustu, ekki síst í ljósi upplýsinga um verulega súrnun hafsins norður um Ísland sem ég ræddi á Nuuk-fundinum. Þar komu líka fram nýjar, válegar upplýsingar um vaxandi kvikasilfursmengun í norðurhöfum og sömuleiðis um hækkun á yfirborði sjávar um allt að 1,5 metra fyrir lok aldarinnar. Þarna verðum við Íslendingar að veita fastari viðspyrnu. Loftslagsstefnan verður að vera lykilþáttur í utanríkisstefnu okkar Íslendinga.

Ég vil nefna annað mál sem tengist líka norðurslóðastefnu og loftslagsstefnu og það er aukin áhersla á samstarf okkar við næstu granna okkar, Grænland og Færeyjar. Undir forustu fyrrverandi heilbrigðisráðherra var lokið nýju og stórmerkilegu samkomulagi við Færeyjar um aukna þjónustu við Færeyinga á sviði heilbrigðismála. Mest nýmæli í því samstarfi sem er fram undan við Færeyjar tel ég þó vera viðræður sem eru byrjaðar og hafa átt sér stað um samstarf í orkumálum.

Grænlendingar eiga eins og við vitum miklar auðlindir á sviði fallvatna, m.a. á austurströnd Grænlands þar sem einungis lítill hluti þjóðarinnar býr. Orka sem væri virkjuð á austurströnd Grænlands, flutt um sæstreng til Íslands og áfram til Evrópu gæti í senn búið til miklar tekjur sem gætu verulega styrkt innviði grænlenska samfélagsins, gæti útvegað Færeyingum alla þá endurnýjanlegu orku sem þeir þurfa á að halda en um leið skapað mun hagkvæmari grundvöll en ella fyrir sæstreng milli Íslands og Evrópu. Þá er vitaskuld ótalinn sá ávinningur sem væri fólginn í þessu fyrir loftslag heimsins.

Ég hef rætt orkuþríhyrninginn Ísland-Færeyjar-Grænland við forsætisráðherra hinna þjóðanna tveggja, Kuupik Kleist og Kai Leo Johannesen. Frá því er skemmst að segja að á þessu frumkvæði Íslands er mikill áhugi. Það gildir um fyrirtæki heima á Íslandi sem eru þegar farin að undirbúa sig fyrir þetta, stór og smá, líka um fyrirtæki erlendis sem og um stjórnvöld landanna þriggja.

Í þriðja lagi hefur í fyrsta sinn verið lögð fram þingsályktunartillaga um þróunarsamvinnu þar sem meginmarkmiðið er að ná áformum Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála árið 2020. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka jákvæðar undirtektir allra þeirra sem tóku til máls um þessa tillögu, ekki síst hv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Við Íslendingar verðum nefnilega að muna, þrátt fyrir allan armóðinn sem stundum gýs upp okkar á meðal, að við erum enn þá meðal ríkustu þjóða heims. Við höfum þess vegna skyldu til að taka fullan þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr hungri, fátækt og barnadauða, hjálpa hinum fátækustu til að hjálpa sér sjálfum og enn fremur stuðla að sjálfbærri þróun, ekki síst á þeim sviðum þar sem við Íslendingar teljumst sérfræðingar eins og í sjávarútvegi og endurnýjanlegri orku.

Fjórða málið sem ég vil nefna, og er líka nýmæli, er undirbúningur að nýrri þjóðaröryggisstefnu. Ég er sannfærður um að líka í þessum málaflokki getur Alþingi náð breiðri sátt um gildi og grundvallaráherslur sem eiga að verða forsenda nýrrar þjóðaröryggisstefnu.

Frú forseti. Alþingi samþykkti með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í öllum ríkjum þar sem menn hafa sótt um aðild hefur verið deilt um það hvort hún sé jákvæð eða neikvæð. En enginn deilir lengur um þá staðreynd að aðild varð öllum þessum ríkjum til farsældar og hagsbóta. Engin aðildarþjóðanna vill ganga úr sambandinu. Segir það ekki sögu sem við Íslendingar þurfum að hlusta á?

Það deilir heldur enginn um að mikill meiri hluti Íslendinga vill halda ferlinu áfram og fá að kjósa um samning. Landsmenn vildu sjálfir ráða niðurstöðunni í Icesave og Íslendingar vilja sjálfir fá að kjósa hvort þeir standa utan ESB eða innan þegar samningurinn liggur fyrir. Íslendingar eru lýðræðissinnar og þannig þjónum við lýðræðinu best, með því að leggja alla kosti á borðið, leggja samninginn fyrir þjóðina — og leyfa henni sjálfri að ráða.

Málefnalegar skoðanir annarra eru vitaskuld fyllilega lögmætar og þær verða örugglega fram bornar af miklum krafti hér við umræðuna. Mínar skoðanir byggi ég á því að Íslendingum hefur alltaf vegnað best í nánu samstarfi við Evrópuþjóðir. Hvert skref sem við höfum tekið til nánara samstarfs hefur fært okkur bætt lífskjör. Aðildin að EFTA á sínum tíma skipti sköpum fyrir þjóðina. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið lagði grunn að nýrri velsæld. Nákvæmlega núna erum við að byggja upp til framtíðar og allir eru sammála um að við þurfum auknar fjárfestingar til að skapa ný störf og útrýma atvinnuleysi.

Evrópuleiðin er þess vegna valkostur sem Íslendingar eiga að fá að velja eða hafna. Hverjar hafa afleiðingarnar orðið fyrir atvinnulíf og fjárfestingar smáþjóðanna sem síðast gengu inn í ESB? Fyrir Eistland, Lettland, Litháen, Slóveníu, Möltu og Slóvakíu? Jú, í kjölfar aðildar jukust fjárfestingar verulega, þær tvöfölduðust sums staðar. Og hvaðan komu þær? Fyrst og fremst úr öðrum ESB-ríkjum. Við Íslendingar þurfum á sams konar fjárfestingum að halda frá ríkjum Evrópusambandsins til að útrýma atvinnuleysi á Íslandi sem fyrst.

Frú forseti. Krónan hefur vissulega dugað sem vopn til að komast úr þeirri kreppu sem hún steypti okkur í en sjálfstæð örmynt í opnu fjármálakerfi heimsins verður alltaf veikur stafur að styðjast við. Þess vegna á þjóðin að fá að kjósa um það hvort hún vill aðild að Evrópusambandinu, taka upp evru, Evrópuvexti, létta okkur leiðina frá verðtryggingunni og kasta gjaldeyrishöftum.

Það vill svo skemmtilega til, frú forseti, af því að hér í salnum eru nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins að í þessu efni er ég algjörlega sammála Framsóknarflokknum. Ég tek heils hugar undir með því sem segir orðrétt í nýlegri landsfundarályktun flokksins, með leyfi forseta, að „þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu“. Hv. þingmenn (Gripið fram í.) Framsóknar vita því hvar þeir eiga vinum að mæta þegar þeir herklæðast til að framfylgja fyrirmælum landsfundarins sem sagði líka orðrétt í sömu ályktun að Framsóknarflokkurinn muni, með leyfi forseta, „berjast fyrir þeim rétti“. Ja, framsóknarmenn vita að þeir eiga vopnabróður í utanríkisráðherra þegar þeir fara að framfylgja þessum þætti í landsfundarályktun síns ágæta flokks. (Gripið fram í: … utanríkismálanefnd.) (Gripið fram í: Lestu áfram.)

Frú forseti. Menn tala um að fullveldi tapist með aðild. Herra trúr, hvert er okkar fullveldi þegar við þurfum í viku hverri að laga okkur að ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með nýjum reglum, nýjum tilskipunum, nýjum þingsályktunum og nýjum lögum þar sem íslenskir ráðherrar, íslenskir þingmenn, íslenskur almenningur getur ekki breytt einum einasta stafkrók? Er það fullveldið sem við viljum? Það er að minnsta kosti fullveldið sem Heimssýn berst fyrir, enda greiðir formaður hennar atkvæði mánuð eftir mánuð, viku eftir viku með aðlögun að ESB án þess að hafa nokkra möguleika á að breyta einu einasta orði. Það er reyndar eina aðlögunin sem er í gangi. Það er oft erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur í stjórnmálum eins og örlög hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar í þessu máli hafa sýnt okkur. (Gripið fram í: … telur það …)

Frú forseti. Hverjir eru okkar bestu bandamenn í umsóknarferlinu? Það eru smáríkin. Kvarta þau undan því að hafa tapað fullveldi? Nei, þau telja sitt fullveldi hafa eflst og við erum ekkert öðruvísi en þau. Reynslan sem við Íslendingar fundum vel í Icesave er að smáríkin verja hagsmuni hvert annars með kjafti og klóm. Þess vegna tel ég að fullveldi okkar sé betur tryggt í samstarfi innan sambandsins en utan.

Frú forseti. Í skýrslunni sem ég hef lagt hér fyrir er stöðu umsóknarferlisins lýst ítarlega. Ég hef gætt þess á öllum stigum að málflutningur Íslands sé í fullu samræmi við ítarlegan vegvísi Alþingis og þar með hagsmuni Íslendinga. Hvert skref hefur verið kynnt og útskýrt fyrir utanríkismálanefnd eða starfshópi hennar um Evrópumál þar sem nota bene stjórnarandstaðan er í meiri hluta. Fagnefndir þingsins og þingflokkar fá sömuleiðis þær yfirferðir hvenær sem þeir hafa óskað og sem vilji hefur verið til. Öll gögn eru jafnóðum lögð út á netið og ferlið hefur því verið algjörlega gagnsætt.

Núna er að ljúka rýnivinnunni á löggjöf Íslands og ESB og hún hefur þegar skilað mikilvægum niðurstöðum sem árvökulir og sívinnandi hv. þingmenn hafa ugglaust lesið nú þegar. Sumar eru ansi athyglisverðar: Formaður Heimssýnar hélt því til dæmis fram lengi vel að aðild krefðist sex nýrra stofnana á sviði byggðamála og landbúnaðar. Gott ef þar áttu ekki að starfa þúsundir Íslendinga. Nú liggur fyrir í rýniskýrslu sem fulltrúar landbúnaðarins áttu meðal annars þátt í að semja að Íslendingar þurfa ekki að setja upp neina nýja stofnun, enga, ef þeir ekki kjósa sjálfir.

Annar hv. þingmaður sem er með miklu merkilegra doktorspróf en mitt lýsti því margsinnis yfir að það gæti tekið allt að 35 ár fyrir Íslendinga að taka upp evruna vegna ákvæða Maastricht-samningsins um skuldir ríkisins. Líklega hefði sá ágæti maður þurft að fá sér nýtt doktorspróf. (Gripið fram í: … Icesave?) Það liggur nefnilega fyrir í mati bestu sérfræðinga okkar að skuldastaða íslenska ríkisins er víðs fjarri því að verða þrándur í götu Íslands að evrunni. Íslendingar gætu með réttri heimavinnu tekið upp evruna þremur árum eftir samþykkt aðildar í þjóðaratkvæði. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvaða evru?)

Frú forseti. Rýnivinnan hefur líka leitt í ljós erfiða þætti. Það mun til dæmis kosta mikinn tíma og mikla peninga að breyta ýmsum kerfum stjórnsýslunnar, eins og til dæmis í tolla- og skráningarmálum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við, eins og aðrar umsóknarþjóðir, eigum samkvæmt opinberum reglum sambandsins kost á að það taki umtalsverðan þátt í þeim kostnaði eins og er fullkomlega eðlilegt. Ef sambandið telur nauðsynlegt að Íslendingar breyti einhverju í stjórnsýslunni eftir að þjóðin hefur samþykkt aðild er bæði rökrétt og sanngjarnt að það beri meginkostnaðinn af slíkum breytingum. Íslendingar njóta þar einfaldlega sama réttar og sömu skyldna og aðrar umsóknarþjóðir.

Frú forseti. Örfá orð um Líbíu. Ég studdi aðgerðir í krafti ályktunar öryggisráðsins til að vernda íbúa Líbíu gegn blóðsveitum Gaddafís og til að stuðla að frjálsum kosningum sem ég styð um alla Norður-Afríku. Það sama gerðu talsmenn allra flokka á Alþingi, ekki einu sinni heldur tvisvar. Á því augnabliki stóð heimurinn auðvitað frammi fyrir þeirri staðreynd að harðstjórinn Gaddafí hafði tygjað sveitir sínar til blóðfarar gegn íbúum Bengasí. Eins og menn muna vitnuðu yfirlýsingar hans í beinni útsendingu gagnvart öllum heiminum um að hann mundi engu eira og hann mundi sýna íbúum Bengasí enga miskunn. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði á fundi í Lundúnum sem ég sat að þessar aðgerðir hefðu bjargað þúsundum mannslífa.

Ég hef hins vegar sums staðar verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki beitt neitunarvaldi Íslands þegar Atlantshafsbandalagið tók að sér að samræma aðgerðir í orðastað annarra þjóða, ekki síst nánustu frændþjóða okkar. Áður en að því kom sagði ég beinlínis Alþingi frá afstöðu minni úr þessum stóli og ráðuneytið átti samráð við utanríkismálanefnd. Forsíður heimsmiðlanna voru í heila fimm daga fullar af fregnum af því að Atlantshafsbandalagið væri að ræða aðkomu sína að aðgerðum í Líbíu. Punctum saliens er að ákvörðunin hafði aðdraganda, afstaða mín lá fyrir og enginn þingmanna gerði við hana athugasemd.

Það sem mestu skiptir er þó það, frú forseti, að þegar einstök ríki hófu aðgerðir sínar áður en bandalagið tók við samræmingarhlutverkinu kom algjörlega skýrt fram að sum þeirra túlkuðu ályktun öryggisráðsins með þeim hætti að hvaðeina væri heimilt til að draga burst úr nefi Gaddafís. Sum herveldanna reifuðu opinberlega að senda herlið til Líbíu, senda vopn til uppreisnaraflanna eða „taka Gaddafí út“ eins og einn hv. þingmaður orðaði það. Atlantshafsbandalagið hafnaði þessu öllu og það túlkaði ályktun 1973 með mun hófstilltari hætti en nokkurt hervelda Evrópu. Ég lít svo á að bandalagið hafi fremur verið hemill á stigmögnun átakanna. Mín skoðun er því sú að miski óbreyttra borgara hefði orðið meiri án samræmingar bandalagsins ef þessar þjóðir, sem við vitum öll hverjar eru, hefðu fengið að túlka ályktun öryggisráðsins eins og þau voru bersýnilega byrjuð að gera.

Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að íslensk stjórnvöld telja að ályktun öryggisráðsins veiti ekki heimild til að ráða tiltekna menn af dögum. Menn eins og Gaddafí á að sækja til saka fyrir alþjóðlegum dómstóli og þess vegna flutti Ísland með öðrum þjóðum tillögu um þá rannsókn sem leiddi til ákærunnar sem birt var á hendur honum, syni hans og yfirmanni leyniþjónustunnar núna í morgun.

Frú forseti. Í blálokin örfá orð um Palestínu. Palestínumenn tel ég að hafi á allra síðustu dögum brotist út úr læstri stöðu með eftirtektarverðum hætti. Fatah og Hamas hafa ákveðið að snúa bökum saman um að styðja sameiginlega nýja ríkisstjórn. Sem við ræðum hér utanríkismálin á Alþingi er hafinn fundur í dag í Kaíró þar sem verið er að mynda nýja ríkisstjórn sem á næstu vikum mun væntanlega lýsa stuðningi við tveggja ríkja lausnina, andstöðu við allt ofbeldi, og síðan vinna að stuðningi við sjálfstæði Palestínu á grundvelli landamæranna frá 1967. Við höfum verið í sambandi við Palestínumenn eftir þessi sögulegu kaflaskipti og þegar ég ræddi síðast á laugardag við utanríkisráðherra Palestínu, Riyad al-Malki, var hann meira að segja bjartsýnn á að nýju ríkisstjórninni tækist að hefja sjálfstæða samninga við Ísrael fyrir haustið. Ég tel að þessi þróun hafi skapað algjörlega nýja stöðu fyrir Palestínu sem við þurfum að fylgjast náið með. Okkar stefna hefur alltaf verið sú að það sé ótvíræður réttur Palestínumanna að búa í friði í eigin landi, lausir undan hernámi. Ég mun að sjálfsögðu hafa samráð við utanríkismálanefnd um það hvernig Íslendingar geti best stutt við friðarþróun og réttlætið gagnvart þessari löngu þrætu sem í reynd er undirrót átaka og hermdarverka um allan heim, líka í okkar heimshluta.