139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslu um utanríkismál. Þar er af nógu að taka eins og hæstv. ráðherra sagði og í ljósi stutts tíma ætla ég að einbeita mér að Líbíu.

Það vakti athygli mína í skýrslunni að þar er ekkert rætt um þann ágreining sem augljóslega er innan ríkisstjórnarinnar um yfirtöku NATO á hernaðaraðgerðum í Líbíu. Það mátti skilja á máli hæstv. utanríkisráðherra áðan að hann væri að snupra ráðherra ríkisstjórnarinnar, ráðherra Vinstri grænna, með því að vísa í að öllum hefði mátt vera ljóst, bara af því að lesa heimsfréttirnar, að þessi ákvörðun væri í loftinu. Ég er reyndar sammála því og ég er sammála því sem hæstv. ráðherra hefur sagt að afstaða þingsins er ljós. Það breytir ekki því að a.m.k. þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sagt: Nei, ég styð ekki þetta, við vorum ekki spurð.

Var afstaða Íslands (Forseti hringir.) þegar fastafulltrúi Íslands greiddi (Forseti hringir.) atkvæði í Norður-Atlantshafsráðinu að einhverju leyti skilyrt? (Forseti hringir.) Kom andstaða hins ríkisstjórnarflokksins í ljós við þá atkvæðagreiðslu?