139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðuna þó að hún hafi frekar verið meiri að magni en gæðum. Mestu fréttirnar í skýrslunni virðast vera þær að ráðherrann þuldi hér upp stefnuskrá Framsóknarflokksins, eins og hann gerir svo gjarnan þegar utanríkismál eru rædd, og svo er hann búinn að bæta Heimssýnarstefnuskránni líka við ræðu sína en það er ágætt.

Ráðherrann fór mörgum fögrum orðum um það að Íslendingar vildu þjóðaratkvæðagreiðslur, það væri mjög góð hefð fyrir þeim og vísaði í Icesave-samningana. Ég vil vekja athygli ráðherrans á því að þær tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem farið hafa fram voru ekki með vilja ríkisstjórnarinnar eða samþykki hennar heldur vísaði forsetinn málinu til þjóðarinnar.

Mig langar til að spyrja ráðherrann: Hvað finnst honum um þá þingsályktunartillögu, sem föst er inni í utanríkismálanefnd, frá mér og fleiri þingmönnum um að þjóðin fái að greiða atkvæði um það í síðasta lagi 1. september hvort halda eigi áfram aðlögunarferlinu eða ekki?