139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður má ekki reiðast mér fyrir að hafa áhuga á Framsóknarflokknum. Nú væri heimurinn miklu betri, tel ég, frá hennar sjónarhóli ef fleiri hefðu slíkan áhuga. Ég segi henni varðandi þetta tiltekna mál að þar fylgi ég meginstraumi Framsóknarflokksins. Ég fylgi í því efni þeirri ályktun sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínu um daginn og sagði að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu, og fyrir þeim rétti muni Framsóknarflokkurinn berjast. Ég berst fyrir þeim rétti líka. Mér þykir miður að hv. þingmaður skuli skjóta sér þarna í einhverja kvísl sem rennur fram hjá meginstraumi Framsóknarflokksins því að hún er ósammála landsfundarályktuninni. Þó að ályktunin segi það líka alveg skýrt að hún telji að hag Íslands sé betur borgið utan en innan Evrópusambandsins segir landsfundarályktun Framsóknarflokksins einnig kýrskýrt að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um málið þegar samningur liggur fyrir. Því fylgi ég. Ég tek sem sagt afstöðu með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í þessu máli.