139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Nei, frú forseti, það getur ekki verið. Ástæðurnar fyrir því að við fengum ekki skrifstofuna er ég reiðubúinn til að ræða við utanríkismálanefnd en vil síður gera það yfir þetta púlt. Það liggur fyrir að innan Norðurskautsráðsins eru t.d. tvær ESB-þjóðir og ESB hefur því næg tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, og þessar þjóðir eiga lönd innan norðurheimskautsins bara svo það liggi fyrir. Þar er að finna frumbyggja norðursins í báðum þessum ríkjum þannig að þessi tvö ESB-ríki eru fullgild norðurskautsríki, meira að segja með sérstöðu sem við njótum ekki en við höfum aðra. Svarið við spurningu hv. þingmanns er nei.

Áhugi minn á norðurskautsmálum er svona svipaður og áhugi þingsins, sem hefur sýnt mjög lofsverða sókn til þess að skilja það mál og koma sér inn í það. Ástæðan er einföld, það eru hagsmunir Íslendinga að geta barist fyrir bættum mengunarvörnum, fyrir bættum viðbúnaði til þess að bjarga og leita að þeim sem í nauðir reka og til þess að koma í veg fyrir olíuslys. Það eru beinharðir hagsmunir Íslands sem gera það að verkum (Forseti hringir.) að við leggjum svona mikla rækt við þennan málaflokk.