139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Tvær spurningar til hæstv. utanríkisráðherra, önnur sem lýtur að EFTA og hin að ESB.

Við vitum að í haust munu Norðmenn skila mjög umfangsmikilli skýrslu um EES-samninginn og nú þegar eru uppi raddir um það meðal Norðmanna að krefjast ákveðinnar endurskoðunar á EES-samningnum. Mun hæstv. ráðherra taka undir slíkar raddir, ef af verður, um endurskoðun á EES-samningnum?

Hin spurningin snertir sjávarútveginn og ESB. Ég get tekið undir margt sem hæstv. ráðherra sagði um ESB og við erum sammála um margt. Ég hefði kosið að öll stjórnmálaöflin á þinginu hefðu sameinast um að ná sem bestum samningi fyrir landið hvort sem það tekur tvö, þrjú eða fjögur ár og bera síðan samninginn undir þjóðina. Helstu fyrirvarar mínir gagnvart Evrópusambandinu snúa að sjávarútvegsmálum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það skemmdarverkafrumvarp eða þau drög sem við höfum fengið að sjá varðandi sjávarútveginn: Telur hann þau drög og væntanlegt frumvarp styrkja stöðu okkar Íslendinga þegar kemur að aðildarviðræðum við Evrópusambandið (Forseti hringir.) og telur hann það verða til farsældar til lengri tíma litið að gjörbreyta (Forseti hringir.) og kollvarpa sjávarútvegsstefnu Íslands gagnvart Evrópusambandinu?