139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns þá hefur hún eins og ég verið langdvölum í þingmannanefnd EFTA og hún á þess vegna að muna að hugmyndir koma alltaf upp annað slagið um að breyta EFTA til ákveðinna hagsbóta, en við höfum ekki átt viðræður við Norðmenn um það. Þetta tiltekna mál skaut fyrst upp kolli fyrir áramót á fundi með utanríkisráðherra Noregs og framkvæmdastjórninni. Það hefur síðan verið rætt í þingmannanefnd EFTA og fín skýrsla skrifuð um það. Ég held öllu opnu í þessu efni. Við erum góðir samstarfsaðilar innan EFTA og við munum ekki taka afstöðu sem leggja þrændi í götu EFTA.

Varðandi hið síðara sé ég ekki í fljótu bragði að það séu neinir sérstakir þættir í því frumvarpi sem hv. þingmaður ávarpar með þessu köpuryrði, skemmdarverkafrumvarp, sem geti skemmt stöðu okkar gagnvart ESB. Ég held ekki. Reyndar rifja ég það upp að Þorsteinn Pálsson, sem á sæti í samninganefndinni, (Forseti hringir.) hefur hins vegar sagt að með því sé verið að færa kerfið nær ESB en það er ekki víst að allir vilji það.