139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er til umfjöllunar. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt skref af okkur hér á þinginu að ákveða það fyrir nokkrum árum að eiga sérstaka umræðu á ári hverju um utanríkis- og alþjóðamál með því að ráðherra leggi fram slíka skýrslu. Eins og vanalega er víða komið við. Ég ætla ekki að fara sérstaklega ofan í einstaka kafla nema bara í upphafi máls míns minnast stuttlega á þætti eins og norðurslóðir, sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni, en ég tel að mikill samhljómur sé um það hér í þinginu að gefa þeim málefnum meiri tíma og athygli, gefa þeim gaum í störfum þingsins. Þar eru hlutir á tiltölulega mikilli hreyfingu. Við höfum mjög mikla hagsmuni af því að fullt og eðlilegt samráð verði haft við okkur sem strandríki hér í Norðurhöfum. Því miður hefur það gerst að einstök ríki hafa hist án þess að kalla alla til, en mér sýnist á því sem gerst hefur síðan það var að það muni ekki gerast aftur með sama hætti.

Ég verð líka í ræðu minni að víkja örstutt að því sem rætt var hér við ráðherrann um Líbíu og aðkomu okkar Íslendinga að ákvörðunum NATO í því efni. Það er mjög bagalegt og okkur ekki sæmandi að í landinu sitji ríkisstjórn sem er jafnósammála um jafnmikið grundvallarmál og aðild okkar að NATO er og aðild okkar að einstökum ákvörðunum sem teknar eru á þeim vettvangi. Það er ekki sæmandi okkur sem fullvalda þjóð sem vill láta taka sig alvarlega að í ríkisstjórninni tali ráðherrarnir út og suður um jafnalvarlegt mál og þar er undir. Hæstv. ráðherra getur ekkert skotið sér undan því að samráðherrar hans, eins og til að mynda hæstv. fjármálaráðherra, hefur hér í þinginu lýst því sérstaklega yfir að málið hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn og að hann sé sem ráðherra mjög andvígur því að Íslendingar hafi nokkuð með það að gera sem ákveðið var, með stuðningi okkar, í Brussel á sínum tíma, í ráðinu. Það var þannig. Við höfðum tækifæri til að hreyfa athugasemdum eða koma í veg fyrir að NATO tæki yfir stjórn mála í Líbíu á sínum tíma, það var ekki gert. Þetta verð ég að minnast á þótt við höfum áður rætt þetta, vegna þess að þetta er hluti af utanríkisstefnu okkar og framkvæmd hennar í víðu samhengi.

Einnig væri tilefni til að fara yfir ýmsa aðra kafla þessarar skýrslu, eins og til dæmis viðskiptamálin og alþjóðlegu þróunarsamvinnuna sem reyndar fær sérstaka umfjöllun hér í þinginu, en ég ætla að verja mestum hluta ræðu minnar í að ræða Evrópusambandsumsóknina og stöðu hennar og þá þróun sem er að eiga sér stað í Evrópusambandinu sem óhjákvæmilega verður að vera hluti af þessari umræðu. Það hlýtur að vera óaðskiljanlegur hluti umræðunnar að ræða þær breytingar sem eru að verða í Evrópusambandinu og áhrif þeirra á aðildarumsóknina og viðhorf manna til þess hvort eðlilegt sé að við séum í aðildarviðræðum og eftir atvikum að Ísland gangi inn í Evrópusambandið í framtíðinni eða ekki.

Hæstv. ráðherra fjallaði um það að það væri svo mikilvægt að íslenska þjóðin fengi að koma að þessu máli. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst mjög holur hljómur í því af hálfu stjórnarliða þegar þeir tala um lýðræðið og aðkomu almennings að einstökum ákvörðunum vegna þess að þeir greiddu atkvæði gegn því að fólkið í landinu greiddi atkvæði um upphaf þessa máls og hafa líka greitt atkvæði gegn því að þjóðin kæmi að því að útkljá Icesave-málið, þannig að öll tækifæri sem stjórnarliðar hafa fengið á þessu kjörtímabili til að bera mál undir þjóðina hafa þeir látið sigla fram hjá sér. Mér finnst þess vegna mjög holur hljómur í þeim málflutningi að allt Evrópusambandsmálið sé rekið áfram af mikilli lýðræðisást og miklu raunhæfara að tala bara um málið eins og það stendur.

Ég heyri þá þann tón hjá hæstv. ráðherra og fleiri stjórnarliðum í dag, eins og hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni — og sami tónn hefur reyndar heyrst frá einstökum samninganefndarmönnum eins og lesa má í skrifum Þorsteins Pálssonar mjög nýlega — að þeir sem helst standa að baki þessari umsókn hafi gefist upp á því að ljúka samningi og bera hann undir þjóðina á þessu kjörtímabili. Það eru nú heilmikil tíðindi í mín eyru. Ég heyrði til dæmis ekki annað á hæstv. ráðherra í fréttum í gærkvöldi en að hann vildi alls ekki tímasetja það hvenær viðræðunum yrði lokið og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er þeirrar skoðunar að það þurfi heilt ár til að kynna niðurstöðuna áður en atkvæðagreiðsla fari fram. Þetta er mjög mikil stefnubreyting, ef rétt er eftir tekið af minni hálfu, frá því sem áður hefur verið kynnt fyrir þjóðinni, þar sem það hefur verið algjört grundvallaratriði að málinu lyki á þessu kjörtímabili og að greidd yrðu atkvæði um það. Það hefur reyndar verið óaðskiljanlegur hluti málflutnings þessara aðila að við værum nú þegar í svo nánu samstarfi við Evrópusambandið að viðræðurnar um þá kafla sem út af standa væru tiltölulega einfaldar. Þess vegna gæti sá tími sem í viðræðurnar fer verið mjög takmarkaður.

Mig grunar hins vegar að þeir sem vilja láta ferlið taka lengri tíma geri það af þeirri einföldu ástæðu að þeir sjá að það er ekki stemmning fyrir Evrópusambandsaðild í dag. Þeir sjá að kosning, ef hún færi til dæmis fram á næsta ári, mundi tapast. Það er sú tilfinning sem ég hef vegna þess að ég hef ekki séð nein efnisleg rök fyrir því að málið ætti að taka þetta langan tíma. Staðreynd málsins er sú að ekkert óvænt hefur komið upp á í aðildarviðræðunum. Þetta er allt eins og við var að búast. Evrópusambandið er búið að setja sér sínar reglur. Í viðræðunum hefur það komið mjög skýrt fram að af Evrópusambandsins hálfu er þess krafist af okkur að við lögum okkur að þeim reglum. Engar vísbendingar hafa fengist um varanlegar undanþágur svo nokkru nemi. Ég get látið það koma fram hér að að svo miklu leyti sem þau mál hefur borið á góma í heimsóknum einstakra aðildarríkja hingað til okkar á Alþingi hefur það verið alveg sérstaklega undirstrikað að varanlegar undanþágur geta aldrei verið nema afar takmarkaðar eins og frægt er til dæmis í Svíþjóð þar sem þeir nefna helst til að þeir hafi áfram fengið að taka í vörina.

Það er ekki boðlegt fyrir okkur að vísa í einhverjar slíkar minni háttar undanþágur þegar við erum að ræða um mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga, sjávarútveginn, meðal annars. Það hefur svo margt verið sagt um stefnu okkar í sjávarútvegsmálum — og hversu ómögulegt það sé fyrir okkur, með þessa grundvallaratvinnugrein, að fela það í hendur Brussel-valdsins að ákveða til dæmis árlegar veiðar við Íslandsstrendur eða yfir höfuð að færa fullveldi okkar í þeim efnum frá okkur yfir í þetta ríkjasamband — að ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Það bara æpir á okkur og ef það hefur ekki gert það fyrr, hlýtur það að gera það núna, vegna þess að aukið mikilvægi greinarinnar er vonandi öllum ljóst eftir þær breytingar sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti.

Hitt tel ég að sé orðið tímabært að við ræðum nánar, svo að ég sleppi nú sjávarútvegsumræðunni sem svo oft er tekin, en það er aukin sókn Brussel-valdsins í völd. Það er nefnilega mjög merkileg staðreynd að við erum á Íslandi að ræða það annars vegar að færa meira vald til fólksins, að taka það jafnvel inn í stjórnarskrá að hægt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um einstök mál. Við höfum jafnframt verið að þróa það á sveitarstjórnarstiginu að íbúarnir fái að koma nær einstökum ákvörðunum, hvort sem er um skipulagsmál eða einstakar ákvarðanir eins og álver í Helguvík eða flugvöllinn í Reykjavík eða annað þess háttar. Á sama tíma og þetta skýra ákall er frá fólkinu í landinu, um að fá að koma beint að málum, erum við að ræða það í fullri alvöru að færa risastóra málaflokka frá okkur til Brussel þar sem endanleg ákvörðun í málum verður tekin af þeim sem við getum aldrei kallað til ábyrgðar. Það dugar ekkert að nefna hér að við munum eiga einstaka þingmenn á Evrópuþinginu, þeir verða alltaf undir þeim massa sem þeir mæta þar, þeir munu ekki ráða við þann mikla fjölda sem fyrir er í þinginu og atkvæði þeirra munu engum sköpum skipta.

Mér finnst það mjög merkilegt fyrirbæri í íslenskri þjóðmálaumræðu að þetta tvennt geti gerst á sama tíma, svona sterkt ákall um að fá völdin til sín og að við séum síðan með ríkisstjórn sem keyrir í gegn þá stefnu að færa stóra málaflokka lengst í burtu frá okkur, og það stóra málaflokka á borð við sjávarútvegsmálin.

Annað atriði sem við hljótum að þurfa að ræða er staða gjaldmiðilsins. Við skulum ekki draga fjöður yfir það að sveiflur í gengi íslensku krónunnar og verðbólgan, hin almenna verðtrygging sem hefur gilt hér á Íslandi í langan tíma — þetta allt hefur verið eitt helsta eldsneytið í Evrópusambandsumræðunni. Í skýrslunni er það tiltekið sérstaklega að menn horfi mjög til þess að geta komist út úr krónunni, það muni spara okkur mjög mikið í efnahagslegu tilliti. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni geti skrifað undir það sem hérna segir. Mér finnst það nú ekki góð skilaboð svona almennt frá einni ríkisstjórn að tala niður eigin gjaldmiðil eins og gert er í skýrslunni. Ég tek hins vegar eftir því að utanríkisráðherra er hættur að nefna 200 milljarða sparnaðinn sem stundum hefur verið orðaður, nú eru þetta í skýrslunni, á bls. 31, orðnir einhverjir milljarðar. (Gripið fram í.)

Það sem ég vildi vekja sérstaklega athygli á í þessu sambandi er það að nú er evruríkjunum orðið ljóst að evrusamstarfið gengur ekki upp án þess að menn framselji meira af fullveldi sínu til Brussel. Út á það ganga hinir nýgerðu sáttmálar sem vísað er til, t.d. á bls. 25, hinn svokallaði „Euro Plus Pact“ eða Evrusáttmálinn og eins líka „Pact for Stability and Growth“ eða Stöðugleikasáttmáli ESB sem nefndur er á bls. 25. Þetta eru sáttmálarnir, sérstaklega Evrusáttmálinn, þetta eru aðgerðir sem forseti Tékklands hefur nefnt til vitnis um að þjóðríkin séu að missa meira og meira af fullveldi sínu til Brussel. Það hefur nú runnið upp fyrir evruríkjunum að evrusamstarfið gengur ekki upp án frekara framsals á efnahagslegu sjálfstæði sínu til miðstýringarvaldsins. Þetta eru slíkir grundvallarþættir sem eru að breytast bara þessi missirin í Evrópu og í evrusamstarfinu að við hljótum að verða að taka þá til umræðu í tengslum við umræðu um aðild okkar að Evrópusambandinu eða aðildarumsóknina.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ég hef fyrst og fremst byggt andstöðu mína við aðild okkar að Evrópusambandinu á því að við værum að framselja of mikið af fullveldi okkar. Það er hægt að nefna sérstaklega sjávarútveginn í því sambandi, en það eru að koma fleiri og fleiri dæmi upp, bara frá því umsóknin var lögð fram, um að evrusvæðið mun krefjast þess að menn samræmi meira í skattframkvæmd sinni, samræmi meira og undirgangist jafnvel efnahagslegar refsiaðgerðir og nýja stefnu í ríkisfjármálum til þess að mega komast inn í klúbbinn. Það er vegna þess að það gengur ekki að eiga myntsamstarf með þeim hætti sem gert hefur verið með lausbundnum viðmiðum um það hvaða skilyrði menn þurfi að uppfylla. Þetta sést til dæmis á því að lengi framan af hefur ekkert einasta Evrópusambandsríki eða hvað þá evruríki uppfyllt öll skilyrði Maastricth-sáttmálans. Við þessu er verið að bregðast og við verðum að taka þetta með inn í umræðuna um aðildarumsóknina.

Það sem mér finnst standa upp á ríkisstjórnina eins og sakir standa er að svara því mjög skilmerkilega án frekari tafa hvort það sé sem sagt orðið ljóst í dag að menn treysti sér ekki til að ljúka viðræðuferlinu og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins. Mér segir svo hugur að það sé staðan, en það er ekki vegna þess að eitthvað efnislegt hafi komið upp í viðræðuferlinu sem verður svo tafsamt að semja um. Það er vegna þess að flokkarnir tveir þora ekki að horfast í augu við kjósendur (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili þar sem þeir eiga á hættu að tapa í atkvæðagreiðslu í þriðja sinn á einu og sama kjörtímabilinu.