139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef alltaf sagt að þetta snúist ekki um hraða heldur gæði. Það er alveg klárt að um leið og samningunum er lokið, og við skulum segja að þeir taki brátt af, það er ekkert óhugsandi, verður farið með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og auðið er. Það er engin spurning um það.

Ég er síðan algjörlega ósammála hv. þingmanni um það hver niðurstaða þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu verður. Ég held til dæmis að hv. þingmaður, það mátti hugsanlega lesa úr ræðu hans, geti ekki dregið samasemmerki á milli Icesave-niðurstöðunnar og þessarar niðurstöðu, alls ekki. Þegar menn standa frammi fyrir samningnum og ef það nást samningar sem Íslendingar una við varðandi til dæmis sjó og land tel ég að fyrir þorra íslensks almennings sé svo mikill ávinningur í því að geta tekið upp evruna að það verði hér rungandi meiri hluti fyrir þessu þegar að því kemur. En ég get ekki fullyrt það fyrir fram og ég verð að gera ráð fyrir hinum möguleikanum.

Hitt fullvissa ég hv. þingmann um, að hann þarf ekki (Forseti hringir.) að vera með neina paranoju um að þessi ráðherra sé eitthvað hræddur við að fara í kosningar. Ég hef farið í svo margar, oft unnið, (Forseti hringir.) stundum tapað. Ég lifi.