139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni kærlega fyrir ræðuna. Það er sagt til sveita að í góðri smalamennsku sé hundunum sigað á féð til að breyta stefnu þess eða halda stefnu þess. Það hefur gjarnan verið svo með þessa ríkisstjórn að þingmenn séu sendir fram á sviðið til að bera þjóðinni og þingmönnum skilaboðin. Síðast í gær virðist þetta bragð hafa verið notað þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti þjóðinni að kosningar um ESB yrðu líklega ekki fyrr en 2013.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn: Getur verið að þetta sé hluti af því að nú sé stjórnlagaráð að störfum sem kemur til með að leggja fyrir þingið stjórnarskrárbreytingar er lúta að því að fullveldisafsal þjóðarinnar verði afnumið úr stjórnarskrá? Til að breyta stjórnarskránni þarf þingkosningar og samkvæmt plani verða þingkosningar að vori 2013 og ætlar þá ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sér að afmá þessa stjórnarskrá til að ESB-málið þurfi jafnvel ekki að fara til þjóðarinnar seinni hluta árs 2013?