139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmenn alla að íhuga mjög vel þetta sem ég kom fram með í fyrri ræðu minni. Sjálfstæðisflokkurinn vildi tvöfalda leið, leið þess að þjóðin segði hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu, í fyrsta lagi hvort það ætti að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og í öðru lagi, vildi þjóðin það, átti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem samningnum yrði hafnað eða hann samþykktur.

Að mínu mati beitir Samfylkingin öllum brögðum til að þessi Evrópusambandsaðild fái að halda lífi. Jafnvel vitum við þingmenn að þjóðaratkvæðagreiðsla sú sem er boðuð í tillögunni er ekki bindandi, hún er einungis ráðgefandi. Það kom fram í umræðunum og hefur margoft komið fram annars staðar. Þess vegna óttast ég að þetta fullveldisframsal, sem ég veit að ákveðnir aðilar í stjórnlagaráði (Forseti hringir.) vinna að að afnema úr stjórnarskrá, verði fellt á brott þannig að Samfylkingin geti sagt: Hér þarf ekki lengur þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um fullveldisafsal.