139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi í grein minni að það væri undir hælinn lagt hvað kynningarferlið tæki langan tíma, það færi eftir þeim sem færu fyrir já- og nei-hreyfingum og öðrum þeim sem munu berjast með eða á móti samningnum sem heim kemur. Gengi ferlið eftir eins hratt og hugsast gæti og samningaviðræðum lyki síðsumars árið 2012 er ekkert ólíklegt að hér yrði kosið á fyrstu mánuðum ársins 2013, febrúar, mars kannski, sem væri þá einhverjum mánuðum fyrir þingkosningar ef þær eru alveg í blálokin á kjörtímabilinu. Það á bara eftir að koma í ljós.

Ef þetta gengur eins hratt og hugsast getur og við kjósum í febrúar 2013 leiddum við til lykta samning á meiri hraða og styttri tíma en nokkur önnur þjóð sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu frá upphafi þess. Þær þjóðir sem fóru inn á stystum tíma, eins og ég nefndi áðan, Finnland og Svíþjóð, (Forseti hringir.) gerðu það á rúmlega fjórum árum. Það var sem sagt á fimmta ári þannig að það væri vel af sér vikið ef okkur tækist að klára það á þremur og hálfu ári.