139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er þekkt að hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur, a.m.k. í greinaskrifum á fyrri stigum, látið í ljós þau viðhorf að það geti verið skynsamlegt að leita eftir því gagnvart Evrópusambandinu hvað kynni að vera í boði, eins og það er stundum orðað, hvað Ísland varðar. Það sem mig langar að heyra frá þingmanninum núna er hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að það eigi að ljúka viðræðunum þannig að þjóðin geti kosið um þær niðurstöður sem koma út úr þeim. Telur hann að það sé jafnvel betra við núverandi aðstæður að hætta þessu umsóknarferli, láta staðar numið? Á hvaða grundvelli mundi hann þá vilja gera það og með hvaða rökum? Telur hann þá lýðræðislegra að taka ákvörðun um það á þinginu eða er hann þeirrar skoðunar, eins og hann hefur að minnsta kosti á einhverjum tímapunkti lýst, að það eigi að láta á þetta reyna og láta þjóðina kveða upp sinn dóm um það (Forseti hringir.) hvort hún vill fara þarna inn eða ekki?