139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að fjalla um það hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð á ekki aðild að meiri háttar ákvörðunum á sviði utanríkismála sem teknar eru af ríkisstjórn sem sá flokkur á þó aðild að en ég ætla að láta það liggja milli hluta að sinni.

Ég ætlaði að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar að því hvort hann telji að til greina komi að viðræðum við Evrópusambandið verði lokið eða slitið á einhverju stigi áður en endanlegur samningur liggur fyrir, meðal annars í ljósi ummæla sem féllu af hálfu talsmanna hans flokks meðan verið var að fjalla um þetta mál hér í þinginu 2009, um það að auðvitað gæti ríkisstjórnin hvenær sem er hætt viðræðum ef upp kæmi slík staða að það þjónaði ekki tilgangi að halda áfram.