139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi afstaða sem þingmaðurinn vísar til, og kom meðal annars fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, kom einnig fram í framsöguræðu minni með nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar í júlí 2009 þar sem ég lýsti nákvæmlega þessu sama viðhorfi, þ.e. að ég teldi að við ættum að hafa þann möguleika — nú kann ég ekki nákvæmt orðalag úr þeirri ræðu en efnislega var það á þá leið að ef við rækjumst á veggi í þessum viðræðum og sæjum fram á að við næðum engum árangri í þeim atriðum sem við hefðum sett upp í áliti meiri hluta nefndar sem okkar meginsjónarmið gæti Alþingi að sjálfsögðu tekið þá ákvörðun. Já, það er mín afstaða.

Ég er hins vegar einnig þeirrar skoðunar eins og staðan er núna og staðan í viðræðunum er að við eigum að ljúka þeim. Það hefur ekkert komið upp í þessu ferli, að minni hyggju, sem réttlætir að sú ákvörðun sé tekin hér og nú.