139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta. Hann sem sagt metur það svo að það sé möguleiki, og við eigum að halda þeim möguleika opnum, að slíta viðræðunum ef við rekum okkur á veggi, eins og hann segir. Hann segir jafnframt: Við eigum að ljúka þessum aðildarviðræðum af því að við höfum ekki enn þá rekist á þessa veggi.

Þá leiðir það hugann að því að enn eru hinar eiginlegu samningaviðræður um umdeild atriði ekki byrjaðar, eftir því sem mér skilst. Við eigum eftir, Íslendingar, að leggja fram samningsviðhorf, samningsafstöðu eða samningsmarkmið í mikilvægustu köflunum, þeim sem við vitum fyrir fram að verða umdeildastir.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar: Hver er afstaða hans til aðkomu Alþingis að mótun þessarar samningsafstöðu eða samningsmarkmiða í mikilvægustu köflunum sem ljóst er að er nú verið að móta á vettvangi samningahópa og samninganefndar?