139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar þau mál sem hv. þingmaður tekur upp varðandi innflutning á lifandi dýrum held ég að ég geti fullyrt að í þeim samtölum og samskiptum sem ég hef átt við fulltrúa Evrópusambandsins og þjóðþinga Evrópusambandsríkja þá höfum við af okkar hálfu lagt áherslu á að þetta bann sem er við innflutningi á lifandi dýrum, og ég styð það, ég tel það mikilvægt — en um leið og við nefnum að þetta sé líka hluti af skuldbindingum okkar á alþjóðavísu að því er varðar líffræðilega fjölbreytni kemur iðulega annað hljóð í strokkinn hjá Evrópusambandsríkjunum en þegar eingöngu er talað um þetta út frá þeirri afmörkuðu nálgun að um sé að ræða takmörkun á frjálsu flæði á vöru eins og það er gjarnan kallað.

Varðandi fríverslunarsamninga er það rétt að fríverslunarsamningar sem við höfum og Evrópusambandið er ekki með falla að sjálfsögðu úr gildi. Á móti kemur að (Forseti hringir.) við gengjum þá inn í þá fríverslunarsamninga sem fyrir eru — (Forseti hringir.) og sérstaklega Hoyvíkur-samningurinn, honum verður flaggað. Það kom fram á sérstökum rýnifundi eða fundi samninganefndar með utanríkismálanefnd að honum verður sérstaklega (Forseti hringir.) haldið á lofti.