139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í framhald ESB-viðræðnanna og með hvaða hætti hann sér fyrir sér að stjórnarflokkarnir eða eftir atvikum einstakir þingmenn muni fylgja málinu eftir, verði viðræðum lokið eins og hann segist sjálfur vilja að gert verði. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, og ég held að það eigi við mjög marga, að mér finnst þetta mjög óskýr stefna sem hér er rekin. Annars vegar er svo mikil áhersla lögð á að ljúka viðræðunum til að fólk fái að greiða atkvæði um samninginn, hins vegar segja menn að komi upp einhver atriði í viðræðuferlinu sem séu ekki samrýmanleg þeim markmiðum sem við setjum okkur sé sá möguleiki opinn að viðræðunum verði slitið. Er það þá þannig að verði viðræðunum lokið t.d. með stuðningi hv. þingmanns, mun hann mæla með því að samningurinn verði samþykktur í atkvæðagreiðslu sem fram fer í framhaldinu?