139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt atriðið sem ég tel að flækist mjög fyrir flestum og erfitt er fyrir mína parta yfir höfuð að skilja. Ef flokkurinn er þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar, og nú er ég að vísa til Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ef hreyfingin er þeirrar (Gripið fram í.) skoðunar að hagsmunum okkar sé best borgið utan ESB en hún vill engu að síður halda þeim rétti til haga að fylgja ferlinu alveg til enda, sé ég ekki að neitt sé meint með því að eitthvað geti komið upp á í ferlinu sem viðræðurnar geti strandað á vegna þess að eins og rifjað var upp héldu menn því til haga að þeir ætluðu að berjast gegn samningnum.

Það er þetta grundvallaratriði sem við ræddum um strax í upphafi að gengi ekki upp og gengur ekki upp í viðræðuferlinu vegna þess að að sjálfsögðu er það þannig í samskiptum ríkja þegar samið er um svona stór mál að þeim verður að ljúka þannig að sá sem skrifar undir og (Forseti hringir.) tekur í höndina á viðsemjandanum sé tilbúinn til þess að bera ábyrgð á því.