139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki við mig að sakast þótt hv. þm. Bjarni Benediktsson eigi bágt með að skilja það sem hrærist inni í heilabúinu á mér eða öðrum í hinni vinstri grænu hreyfingu. En eins og ég horfi á þessi mál þá finnst mér mikilvægt að þjóðin kveði upp úr með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji fara inn í Evrópusambandið eða ekki. Í mínum huga er skynsamlegast að gera það á grundvelli einhverrar niðurstöðu um samning en það getur auðvitað ekki verið þannig að það séu bara þeir sem vilja fara inn í Evrópusambandið sem vilji þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB eiga auðvitað ekki síður að segja: Já, við viljum þjóðaratkvæðagreiðslu á málefnalegum efnislegum forsendum. Eiga þeir ekki að gera það líka? (Gripið fram í.) Ég sé ekki neina mótsögn í þessari niðurstöðu. (Forseti hringir.) Ég geri það ekki þótt hv. þm. Bjarni Benediktsson sjái alla meinbugi á þessari afstöðu.