139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að sjá að það eru fleiri en hæstv. utanríkisráðherra sem hafa þennan mikla áhuga á Framsóknarflokknum og stefnu hans. Hv. þingmaður nefndi að lögð hefði verið fram tillaga um að draga umsóknina til baka, að setja inn sérstaka klausu um að umsóknin skyldi dregin til baka og sú tillaga hefði verið felld. Hún var felld með fimm atkvæðum, minnir mig, en jafnframt var lögð fram tillaga um að ferlið skyldi klárað og svo borið undir þjóðina. Sú tillaga var felld með yfirgnæfandi meiri hluta. Hvers vegna voru báðar þessar tillögur felldar? Jú, af því að menn vildu einfaldlega láta niðurstöðu málefnanefndarinnar standa vegna þess að sú niðurstaða var unnin með samráði við flokksmenn um allt land í öllum félögum flokksins, milli 80 og 90 félögum, mönnum fannst því bara við hæfi að leyfa þeirri niðurstöðu sem frá flokksmönnum hefði komið að standa. Vilji menn lesa eitthvað í hvað þar býr að baki eða býr undir geta þeir borið saman atkvæðagreiðslurnar um að halda ferlinu áfram og klára það og tillöguna um að ljúka ferlinu.

Hvað varðar siðferðilega skyldu þingmanna til að greiða atkvæði í samræmi við niðurstöður þessarar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin hugsar sér að halda um aðild að Evrópusambandinu eða samning við Evrópusambandið þá hefur a.m.k. einn þingmaður, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, lýst því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn Evrópusambandinu, sama hver verður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar, ráðgefandi.

Það liggur raunar fyrir samkvæmt stjórnarskrá að þingmenn eru ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni og ef menn ætluðu að skylda þingmenn til að greiða atkvæði samkvæmt þessari könnun sem fram á að fara meðal þjóðarinnar væri verið að mæla gegn því að þeir færu að stjórnarskránni. Það mega þingmenn ekki gera.