139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég tek það fram að þó svo að ég sé nokkuð gagnrýnin á suma hluti finnst mér prívat og persónulega sá ágæti hæstv. utanríkisráðherra sem nú situr einn sá skeleggasti og öflugasti sem við höfum haft hérlendis um langa hríð.

En, forseti, mér finnst mikilvægt að vekja athygli á því að það er ógjörningur að við fáum náðarsamlegast að taka upp evru samkvæmt Maastricht-skilyrðum nema að halda áfram blóðugum niðurskurði á sviði heilbrigðismála og menntamála. Nú erum við komin inn að merg og ekki hægt að skera meira niður hjá þessum grunnstoðum velferðarsamfélagsins án þess hreinlega að rústa því. Ef við ætlum að halda áfram á þessari braut er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að vegferð þessi er sú hin sama og við erum á hjá AGS.

Ég fékk það staðfest hjá fulltrúum AGS á fundi fyrir sirka tíu dögum að það hefði ekki verið krafa þeirra að skera svo harkalega niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu eða hjá öldruðum og öryrkjum. Það er því stefna velferðarstjórnarinnar að skera niður í þessum viðkvæmu málaflokkum. Mér finnst kunnuglegt stef hljóma varðandi framhaldið. Stefið endurómar áframhaldandi aðhald sem kallast líka niðurskurður því að annars getum við ekki fengið evru.

Ég ætla aðeins að fara yfir hvaða skilyrði eru að aðild EMU, sem eru skilyrðin fyrir upptöku evru. Aðildarríki þurfa jafnframt að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni sem kennd er við Maastricht-skilyrðin. Öll aðildarríki ESB eru aðilar að EMU en ekki öll þeirra hafa uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Skilyrðin eru sett til að tryggja stöðugleika og draga úr hættu á að möguleg efnahagsleg áföll hafi ósamhverf áhrif í aðildarríkjum ESB. Ríkin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB-ríkjum sem eru með lægstu verðbólguna. Langtímastýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en er að meðaltali í þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugt. Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu. Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu. Aðild að gengissamstarfi Evrópu, Exchange Rate Mechanism, ERM II, tekur a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Ef maður horfir á þetta finnst mér harla óraunhæft að láta sem svo að þetta sé raunhæf leið til að taka upp nýjan gjaldmiðil. Það mun ekki gerast án þess að skera þurfi verulega djúpt inn í merginn á velferðarsamfélaginu. En, forseti, til að vera á málefnalegum nótum vil ég taka sérstaklega fram að við höfum fengið greinargóðar upplýsingar um gang mála í aðildarviðræðunum og það er líka ljóst að við getum nýtt okkur þetta ferli til að bæta stjórnsýslu okkar hvort heldur að þjóðin kjósi að ganga í ESB eður ei. Þá er ljóst að þekking starfsfólks utanríkisráðuneytisins mun verða viðamikil í Evrópumálefnum og þeirri stefnu sem þar er og það mun án efa nýtast okkur vel, hvort sem við göngum inn í ESB eða ekki.

Ég hef setið á fjöldamörgum fundum um gang mála í aðildarviðræðunum og ég hef orðið vör við að allir sem vinna í þessu ferli hafa það að leiðarljósi að ná sem bestum samningum. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa það í huga. Og þó að fólk gagnrýni og það réttilega að þetta ferli hafi dregist er það yfirleitt alltaf þannig í svona viðamiklum samningsviðræðum eða aðildarviðræðum að það þarf í raun lítið að fara úrskeiðis til að tímamörk riðlist og þá stórum meira þegar um svo viðamikil verkefni er að ræða. Ég hef eiginlega fullan skilning á því.

En, forseti, því miður er allt stopp hér í samfélaginu út af aðildarviðræðunum því að flokkur utanríkisráðherra virðist líta svo á að ekki megi eða ekki sé hægt að taka neinar ákvarðanir varðandi t.d. afnám verðtryggingar eða upptöku nýs gjaldmiðils fyrr en niðurstaða um aðild sé ljós. Mér finnst gríðarlega mikilvægt, forseti, að þó svo að við séum í aðildarviðræðum þá beitum við okkur jafnframt á öðrum sviðum, að við könnum aðrar leiðir en bara þessa einu leið. Ég held að ESB hefði fullan skilning á því að við einangrum okkur ekki í þessum aðildarviðræðum af því að mjög mikið liggur við og ekki skynsamlegt að setja öll eggin í eina körfu.

Forseti. Mér finnst aðkoma Íslands að hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu svolítið skringileg. Ég studdi flugbann eftir að ályktun nr. 173 var samþykkt hjá Sameinuðu þjóðunum vegna yfirvofandi blóðbaðs í boði hersveita Gaddafís. Ég reyndi jafnframt ítrekað að fá fund í utanríkismálanefnd til að fá nánari upplýsingar um NATO-aðgerðir og jafnframt að fá fulltrúa friðarsinna á fund en það varð ekki neitt úr því fyrr en orðið var of seint að hafa nokkur áhrif á málið. Ég hefði viljað að þingið hefði hreinlega fengið að greiða atkvæði um aðild að hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Það voru t.d. greidd atkvæði um aðild að aðgerðunum í þinginu á Spáni.

Nú er ljóst að þessar aðgerðir eru komnar langt út fyrir það sem samþykkt ályktunar nr. 173 laut að hjá Sameinuðu þjóðunum. Það var t.d. aldrei samþykkt eða lagt til að Gaddafí yrði skotmark eða börn hans og barnabörn. Ég vil því taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um hvernig við gætum beitt okkur til að taka þetta úr því ferli sem þessar aðgerðir eru komnar í.

Mér finnst sorglegt að við höfum ekki beitt okkur nægilega afgerandi varðandi ákallið frá mótmælendum í Barein sem hafa verið myrtir og pyntaðir með dyggri aðstoð frá nágrannaríkinu Sádi-Arabíu en þar sendu menn hermenn til að aðstoða stjórnvöld í Barein við að stöðva ákallið um réttlæti og breytingar frá almenningi í því landi. Þá finnst mér að við mættum beita okkur meira við að fordæma dæmalaust ofbeldi gegn mótmælendum í Sýrlandi en þar er t.d. gengið hús úr húsi til að handtaka fólk eftir mótmæli ef grunur leikur á að það hafi mætt í slíkt. Því miður er það svo. Ég sá frétt í gær þar sem rætt var við mann frá Sýrlandi sem hefur barist fyrir mannréttindum og flúði þaðan fyrir fjórum árum til Bandaríkjanna og hann sagði að börn alveg niður í átta ára gömul væru pyntuð og jafnvel neglurnar rifnar af fingrum þeirra. Samt snýr alþjóðasamfélagið baki við ákalli almennings í Sýrlandi. Því vil ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að fordæma ráðamenn Sýrlands og Bareins fyrir ofbeldi á þegnum sínum og beita sér fyrir því að þetta komist á dagskrá hjá þeim alþjóðastofnunum sem hann hefur aðgengi að.

Forseti. Þegar mannréttindaráðherra Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, sótti Ísland heim var ég svo lánsöm að hitta hana á fundi með öðrum þingmönnum og fólki sem hefur verið áberandi á sviði mannréttindamála hérlendis. Þar var margt reifað og nokkuð rætt um hlutverk smáþjóða. Þar kom m.a. fram sú afstaða margra sem sátu fundinn að hlutverk smáþjóða gæti verið að ríða á vaðið gagnvart því að fordæma t.d. mannréttindabrot eða hafa frumkvæði að friðarviðræðum og hafa afgerandi afstöðu varðandi bætt mannréttindi í heiminum.

Forseti. Ég má til með að hrósa hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa alltaf verið tilbúinn að mæta á fundi sem ég eða aðrir hafa kallað eftir í utanríkismálanefnd. Má þar nefna ýmsa sögulega fundi eins og t.d. fundinn með formanni Félagsins Ísland–Palestína þegar árásin var gerð á „flotilla“ sem var hópur skipa sem fór til Gaza með matvæli og aðrar brýnar nauðsynjar og her Ísraels réðst á og myrti nokkra af þeim friðarsinnum sem þar voru um borð. Við höfum jafnframt alltaf fengið gott aðgengi að sérfræðingum hjá utanríkisráðuneytinu þegar eftir því hefur verið kallað og ber þar síðast að nefna yfirvofandi árás á samkynhneigða í Úganda sem kom fram í mjög umdeildu þingmannafrumvarpi sem sem betur fer hefur verið lagt til hliðar. Ástandið í Úganda er reyndar mjög slæmt samkvæmt nýjustu fréttum og ég hvet hæstv. utanríkisráðherra að fylgjast mjög náið með ástandinu þar af því að þetta er eitt af þeim löndum sem við veitum þróunaraðstoð. Ég var síðast að lesa frétt í gær um að það sé komið á lista yfir þjóðir þar sem má nánast ekkert bregða út af til að þar verði mjög blóðug átök og ráðamenn hafa verið mjög harðir gagnvart þeim sem hafa farið út á götur til að mótmæla, en þar blasir við töluverð hungursneyð út af hækkandi matvælaverði í heiminum.

Forseti. Þá hefur hæstv. ráðherra oft tekið undir áskoranir mínar um að beita sér í að fordæma eða styðja t.d. lýðræðisvorið í Egyptalandi, í Túnis og Líbíu og er ég því afar þakklát. Mér finnst við geta gert jafnvel enn betur og það hljóti að vera í anda núverandi ríkisstjórnar að beita sér enn frekar á sviði mannréttindamála. Má þar nefna einna helst að það liggur mjög vel við að beita sér fyrir réttindum samkynhneigðra, kvenna og barna, en jafnframt að beita sér fyrir því að styðja betur við bakið á þeim sem berjast fyrir mannréttindum í ríkjum eins og t.d. Kína og Tíbet. Þá væri jafnframt lag að taka upplýsinga- og tjáningarfrelsisbaráttuna upp á sína arma.

Að lokum vil ég segja það, forseti, að mér finnst brýnt að þeir sem nota internetið og setja þar upplýsingar um sig, nota t.d. tölvupósta og samskiptavefi, sem og annað viðkvæmt efni fái að njóta sömu mannréttinda í netheimum sem í raunheimum. Mér fyndist það í anda þessarar ríkisstjórnar að beita sér fyrir því að það yrði tekið upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að í mannréttindakafla Sameinuðu þjóðanna yrði því komið inn þegar talað er um að hver einstaklingur sé fæddur frjáls að hann eigi að hafa mannréttindi bæði í raunheimum sem og í netheimum.