139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú skal ég trúa minni ágætu vinkonu, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir því að stundum finnst mér sem aðrir ráðherrar þar mættu líka horfa meira, a.m.k. með öðru auganu á Evrópu. Ég er ekki að halda því fram að ég standi einn í því, síður en svo, en það er mitt verk, það er mitt hlutverk og ég reyni að sinna því. Aðrir sinna velferðarmálum eins og hæstv. velferðarráðherra. Sumir eru forsætisráðherrar, efnahags- og viðskiptaráðherrar. Ég sinni þessu og mitt ráðuneyti gerir það af miklum krafti.

Eitt langar mig til að segja. Hv. þingmaður reifaði hérna að því er mér virtist vilja sinn til að skoða upptöku nýrrar myntar, taldi að það væru svo mörg ljón á veginum gagnvart því að taka upp evruna og rakti Maastricht-skilyrðin öll réttilega. Nú er það svo að meiri hluti utanríkismálanefndar fór í þetta mál í sínum ágæta leiðarvísi og sagði að burt séð frá aðildarumsókn væri nauðsynlegt að sækjast eftir því að uppfylla þessi skilyrði. Það er hárrétt.

Það er tvennt sem ég vil gera athugasemd við hjá hv. þingmanni. Hún taldi að ef við mundum berjast fyrir því að ná því skilyrði sem felur í sér að ekki megi vera meira en 3% halli á ríkisfjármálum miðað við landsframleiðslu mundi þurfa að skera þjónustuna inn í merg og bein. Það er ekki svo. Samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja um hagvöxt, og það eru ekkert glæsilegar áætlanir, er það samt sem áður þannig að 2013 verðum við búin að ná þessu samkvæmt áætlunum. Þá er eftir erfiðasta skilyrðið sem er það að skuldirnar mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslunni. Á þessu er hins vegar sá vinkill líka að ef skuldirnar eru sjálfbærar og ef þær fara lækkandi tekur Evrópusambandið það gilt líka Eitt af því sem við munum þurfa að koma því í skilning um er að staða Íslands er töluvert öðruvísi, íslenska ríkið á miklu meiri peningalegar eignir hlutfallslega en önnur ríki og staða lífeyrissjóðanna er allt öðruvísi hér en annars staðar. Þegar allt er tekið (Forseti hringir.) er það niðurstaða okkar bestu fræðimanna á þessu sviði að við stöndum síst lakar en flest Evrópusambandsríki, og ég ítreka það sem ég sagði áðan að innan þriggja ára (Forseti hringir.) frá samþykkt aðildar gætum við tekið upp evru.