139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er gott að vera bjartsýnn (Gripið fram í.) og ég vona að bjartsýni hæstv. ráðherra skili sér og ég hef ekkert á móti henni. En ég átti fund með samninganefndinni sem var að fara yfir kaflann um bankamálin og gjaldeyrismálin og þar kom eiginlega fram að við þyrftum áframhaldandi aðhald, og aðhald, samkvæmt því sem ég hef lært eftir að ég fór að vinna hér, þýðir niðurskurður eða einhverjar leiðir til þess að ná niður skuldahallanum.

Mér þætti mjög athyglisvert ef við skoðuðum betur aðrar myntir. Bæði finnst mér athyglisverðar tillögur Lilju Mósesdóttur og fleiri um nýkrónu út frá þýsku leiðinni sem var farin eftir seinni heimsstyrjöldina eða jafnvel kanadíska dollarann eða við mundum bara taka upp, segjum ef þjóðin vill ekki ganga inn í þetta bandalag, evru einhliða án þess endilega að bíða eftir öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum, ef þeir sem vilja fara inn í Evrópusambandið vilja þá aðrar kosningar um það kannski að fimm árum liðnum. Við megum ekki festa okkur í einni leið og það er kannski það sem ég var að reyna að benda á að við megum ekki sjá aðeins eina leið. Við þurfum að skoða margar þannig að við höfum einhverja valkosti. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt.