139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að í þessu máli fer framkvæmdarvaldið, utanríkisráðuneytið, utanríkisráðherra, fyrir samningaviðræðunum. Það hefur komið skýrt fram að samningsmarkmið verði kynnt í utanríkismálanefnd, ég geri ráð fyrir því að þar verði umræður. Ég á ekki von á því að utanríkisráðherra telji sér fært að fara með einhver samningsmarkmið sem ekki hljóta brautargengi í þeirri nefnd. En ef þingmaðurinn er að spyrja að því hvort ég telji að efna eigi til mikilla umræðna eða atkvæðagreiðslna í þingsal um þetta þá held ég ekki, þó að ég hafi ekki hugsað út í þetta fyrr en núna. En mér væri alveg trúandi til að skipta um skoðun þegar ég hef hugsað þetta nánar.