139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hingað til hefur verið um kynningu að ræða vegna þess að það sem hefur verið kynnt hefur verið rýnivinna og það eru meira og minna staðreyndir sem fram koma. Ég á von á því að þegar samningsmarkmið verða kynnt í nefndum verði um þau meiri umræður en hafa verið um þetta og við vinnum okkur áfram í því.

Ég segi ekki að það hafi komið mér á óvart eða neitt svoleiðis en ég verð að segja að mér finnst mjög ánægjulegt hvernig þessi kynning embættismanna hefur gengið í þessum hluta, og ég býst við því að hægt sé að treysta utanríkisráðherra og ráðuneyti hans til að standa jafn vel að því þegar kemur að því að kynna samningsmarkmið eins og þau hafa gert í þessum efnum.