139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flutti ágæta ræðu og hún er í hv. utanríkismálanefnd, meira að segja varaformaður, og hefur sannfæringu fyrir því, að mér sýnist, að við Íslendingar göngum í Evrópusambandið. Hv. formaður nefndarinnar, Árni Þór Sigurðsson, hefur hins vegar sagt, og sagði hér áðan, að hans sannfæring fyrir því hvort við göngum í Evrópusambandið fari eftir því hvernig þjóðin greiði atkvæði. Sem sagt ef þjóðin segir já segir hann já og ef þjóðin segir nei segir hann nei.

Nú vil ég spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort sannfæring hennar sveiflist svipað. Segjum að það yrði 60% þátttaka í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og 32% segja nei, vilja ekki ganga í Evrópusambandið, hvort hv. þingmaður mundi þá líka segja nei og hafa þá ekki lengur sannfæringu fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Í 48. gr. stjórnarskrárinnar, sem hv. þingmaður hefur svarið eið að, stendur:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort sannfæring hennar sé virkilega á þann veg að hún breytist frá degi til dags eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort hún sé þá ekki að fara eftir reglum frá kjósendum sínum en ekki sannfæringu sinni.

Ég hef þannig sannfæringu að hún breytist ekki svona frá degi til dags.