139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég neita því að þetta sé leikrit. Ég er að vísa í stjórnarskrána, 48. gr., sem við höfum svarið eið að. Ég skil hana á þann veg — og ég vil lesa hana, með leyfi frú forseta, þó að ég hafi bara eina mínútu:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Annaðhvort hafa menn sannfæringu fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur, eða menn hafa ekki sannfæringu fyrir því. Annaðhvort hafa menn sannfæringu fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið eða menn hafa sannfæringu fyrir því að Ísland eigi ekki að ganga í Evrópusambandið. Þetta er afskaplega einfalt.

Hv. þingmaður er því að segja að hún ætli ekki að fara að stjórnarskránni. Hún ætlar, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar hefur sagt, að fara að leiðbeiningum kjósenda sinna. (Gripið fram í.)