139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru þrjú atriði í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem mig langar að ræða aðeins betur við þingmanninn. Hún nefndi í ræðu sinni að það væru fyrst og fremst einstakir þingmenn í Evrópu sem hefðu áhuga á norðurslóðum en ekki væri almennur áhugi. Þá langar mig að spyrja þingmanninn hverju það sæti þá að ein sex ríki hafi fasta áheyrn á norðurslóðafundunum — ekki einstakir þingmenn heldur ríkin, og það vantar bara Ítali í þann hóp stórþjóða sem komast ókeypis fram hjá í Eurovision-keppninni — þ.e. Bretland, Þýskaland, Spánn og Frakkland, allar stórar þjóðir í Evrópu, auk Hollands og Póllands.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um EES-samninginn sem hv. þingmaður lýsti hér yfir að Ísland hefði engin áhrif á og við yrðum þar af leiðandi að stíga næsta skref: Í hverju telur þingmaðurinn að munurinn á afstöðu okkar og afstöðu Norðmanna liggi, en þeir virðast ekki hafa sömu sýn og þingmaðurinn?

Í þriðja lagi langar mig að heyra rök þingmannsins fyrir því að flagga ekki strax samningsmarkmiðum í þessum viðkvæmu málaflokkum, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi, í stað þess að byrja að klára léttari kafla eins og þingmaðurinn nefndi. Ef ske kynni að í viðræðum um þessa viðkvæmu kafla kæmi í ljós að við gætum ekki náð samkomulagi og við mundum slíta viðræðum eins og stendur í meirihlutasamþykkt þingsins frá sínum tíma, 2009, hvaða valkosti höfum við þá í stöðunni? Af hverju erum við að vinna að því að klára að innleiða alla kafla þessa samnings, þessa fimm kafla, (Forseti hringir.) ef við ætlum ekki í Evrópusambandið? Til hvers erum við að eyða tíma og peningum í það en látum ekki reyna á það sem skiptir máli sem fyrst?