139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hlýtur að verða svo að þegar samningur liggur fyrir og kemur til umræðu í þinginu, hvort heldur fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, verði öll þróunin í Evrópu rædd, ég á ekki von á öðru. Kannski er skynsamlegt að taka einhverja klukkutíma frá til að gera það fyrst. Við vitum öll að Evrópa stendur ekki kyrr og við stöndum ekki kyrr og kannski gefa allar þær miklu og hröðu breytingar enn meiri ástæðu en mér hefur fundist hingað til, til að vera um borð í Evrópuskipinu, ég skal ekki segja um það. En ég get verið hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að fylgjast með þessu.

Ég kom hins vegar hingað upp aðallega vegna ummælanna um fund þingmannanefndarinnar. Sá fundur er opinn, það er ljóst og það er einnig ljóst að hann var ekki auglýstur nógu vel. Það var hins vegar ekki af ásetningi gert. Ég er viss um að næst þegar slíkur fundur verður hér á landi verður hann auglýstur betur. En þetta var ekkert leyndarmál þingmanna í stjórnarmeirihlutanum eða þeirra sem hlynntir eru umsókninni, það var ekki ástæðan fyrir því að þetta fór ekki hærra. Ég mundi segja að þetta hafi verið mistök, ekki mjög alvarleg og ekki til að reyna að hylma yfir, og mér finnst óþarfi að gera úlfalda úr þeirri mýflugu.