139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þau hrósyrði sem hún hafði um skyggni þeirra sem héldu á penna þegar þeir skrifuðu um stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi. Ég þarf ekki að bera kinnroða fyrir þeim texta. Ég er þeirrar skoðunar eins og þar kemur skýrt fram að íslenskar fiskveiðar og íslenskur sjávarútvegur sé mjög vel rekinn. Ég velti því fyrir mér hvað það er við þessar breytingar, sem hv. þingmaður rifjaði upp að stjórnarflokkarnir hefðu verið að samþykkja að leggja fram í dag, sem er svona erfitt og leggur einhverja steina í götu aðildarumsóknar. Ég spurði stöllu hennar fyrr í dag að þessu sama en mér er það ekki ljóst ef verið er að tala um það að gera samning um nýtingarrétt til tiltekins tíma. Það eru fleiri þjóðir sem hafa það, að vísu ekki innan Evrópusambandsins, en sú þjóð sem við teljum að komist næst okkur á sjávarútvegssviðinu, Noregur, er með svipað kerfi. Ekki er allt á hausnum í sjávarútveginum þar. Menn þurfa að færa skýrari rök fyrir þessu.

Hv. þingmaður las hér upp úr ræðu forsætisráðherra frá því í fyrra. Ég hefði getað lesið hér upp úr ræðum sem hv. þm. Ólöf Nordal hélt hér þar sem ekki var hægt að draga aðra ályktun en þá að hún væri giska hrifin af því að menn skoðuðu þann möguleika að verða aðili að Evrópusambandinu. Það hefur enginn í þessum sal fært jafnsterk rök fyrir því út frá öryggissjónarhóli að það væri farsælt fyrir Ísland. Það gerði hv. þingmaður hér á sínum tíma með þeim hætti að eftir var tekið. Hún hefur því lagt drjúga hönd að því verki að púkka svörðinn fyrir rök okkar sem erum í liði Evrópusinna eins og hún var um sinn. Mér fannst eiginlega á ræðu hennar áðan að hún eyddi of miklum tíma sínum í að lesa ritstjórnargreinar Morgunblaðsins. Hún á miklu frekar að lesa gamlar ræður sínar og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þar töluðu menn af skyggnu mannviti þegar Evrópusambandið var annars vegar. En nú blæs auðvitað öðruvísi í bólið.