139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað afskaplega hamingjusöm yfir því að hæstv. utanríkisráðherra les og hlustar svona rækilega á ræður mínar. Ég er afskaplega ánægð með það.

Aðeins út af þessu aftur með sjávarútveginn, af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi Noreg, það er auðvitað grundvallarmunur á þeirra kerfi og okkar kerfi vegna þess að það eru enn ríkisstyrkir í Noregi á sviði sjávarútvegs. Við höfum ekki verið með slíkt fyrirkomulag. Þetta fyrirkomulag okkar er auðvitað stórmerkilegt. (Gripið fram í: Hvað er Byggðastofnun …?) Það er með allt öðrum hætti en er í Noregi eins og hæstv. utanríkisráðherra veit.

En aðeins út af evrunni. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi að menn séu að grípa til aðgerða til að styrkja evruna. Ég get ekki betur skilið en að stefnan sé sú af hálfu Evrópusambandsins að setja miklu skýrari skilyrði í t.d. ríkisfjármálum tiltekinna landa til að ná því fram að geta verið með sameiginlega mynt. Út frá hagsmunum Evrópusambandsins er ég ekkert undrandi á að svo sé, af því það er skýrt samband á milli peningastjórnunar og stjórnar ríkisfjármála. Það er það sem við erum alltaf að tala um þegar kemur að gjaldmiðli. Sveiflur í honum endurspegla auðvitað það sem er að gerast í sveiflum í efnahagsmálum og það er að gerast í ríkisfjármálum á hverjum tíma. Við þurfum, Íslendingar, eins og allar aðrar þjóðir að halda mjög fast utan um ríkisfjármálin. Það er það sem skiptir máli þegar kemur að því hver þróun gjaldmiðilsins verður. Það á við um krónuna, það á við um evruna líka. Sú tilhneiging er núna hjá Evrópusambandinu vegna þess að menn vilja halda í evruna, að koma með skilyrði til aðildarríkjanna um frekari inngrip í ríkisfjármálin. Við þurfum að velta því fyrir okkur, virðulegi forseti, og ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að gera það mjög rækilega, hvort það sé það sem við viljum, Íslendingar, frekari aðkomu að ríkisfjármálum okkar ef til þess kæmi að Íslendingar færu í Evrópusambandið. Mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli, virðulegi forseti.