139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög áhugavert og kannski sérstaklega þær upplýsingar að Evrópusambandið sé að taka upp þetta kerfi. Við erum búin að ákveða að sækja um, þ.e. meiri hluti Alþingis samþykkti að ganga inn í Evrópusambandið, og gefum okkur að það verði samþykkt vegna þess að Evrópusambandið kæmi með nægilega mikinn pening til að snúa þjóðinni með áróðri og upplýsingagjöf. Þá mundum við samþykkja fyrst stutta frumvarpið, það yrði svo tekið úr sambandi með langa frumvarpinu því að langa frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin sjálf falli úr gildi, þ.e. stutta frumvarpið falli úr gildi. Síðan göngum við í Evrópusambandið og þá eru þeir komnir með þannig stefnu að við tökum í rauninni aftur upp íslensku stefnuna. Er þetta ekki dálítið mikil hringavitleysa?