139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hljómar auðvitað þannig að ætlum við að leggja niður kerfi sem Evrópa virðist ætla að fara að taka upp og við ætlum síðan að aðlaga okkur að hinu nýja kerfi aftur. En þetta er kannski málið í hnotskurn er snertir Evrópusambandið. Við erum að semja við Evrópusambandið eins og það lítur út núna, bæði hvað varðar landbúnaðarkaflann og sjávarútvegsmálin en eins og fram hefur komið eru þau í endurskoðun hjá Evrópusambandinu. Við vitum í raun og veru ekkert um hvaða kerfi við ætlum að fara að semja í sambandi við landbúnaðarmálin. Þar fyrir utan, og þetta gildir auðvitað um alla málaflokka, er Evrópusambandið eitt í dag og verður síðan annað eftir fimm ár og það tekur sínar eigin breytingar. Menn geta svo trúað því sem þeir vilja um hvaða áhrif atkvæði okkar Íslendinga á Evrópusambandsþinginu og með kannski hugsanlega einn framkvæmdastjóra öðru hvoru í þessari stóru hít, muni hafa á það að geta stuðlað að status quo í öllum málaflokkum sem við erum að semja um í dag. Það er auðvitað alveg fjarstæðukennt.

Evrópa mun eftir sem áður fyrst og fremst taka mið af sínum aðalkjarnasvæðum sem eru auðvitað Frakkland og Þýskaland, síðan eru öll önnur jaðarsvæði nema hvað okkur varðar því að við erum eyja langt úti í Atlantshafi og höfum þar af leiðandi, eins og ég hef oft sagt áður, engin landamæri að öðrum Evrópulöndum. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af mengun lofts eða vega eða áa, (Gripið fram í: Ekki ófriði …) jafnvel ekki ófriði eins og öll Evrópa hefur auðvitað haft um aldir. Það er þess vegna sem Evrópusambandið varð til. Menn voru að finna sér vettvang til þess að hætta ófriði og taka á þeim vandamálum sem tengjast því þegar menn búa þétt saman. Við höfum bara allt aðra hagsmuni. Við erum eyja langt úti í Atlantshafi þar sem auðlindir til sjávar og sveita og lofts (Forseti hringir.) og vatns skipta okkur öllu máli og eru verulegar.