139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er komið annað hljóð í strokkinn hjá Samfylkingunni. Þegar hér var verið að ræða ESB-málin vorið og sumarið 2009 skipti mestu máli að leggja umsóknina inn í hvelli, á hraðferð inn í ESB túlkaði hæstv. utanríkisráðherra ferlið þá. (Utanrrh.: Aldrei!) Gulrótinni var veifað framan í þingmenn því að það skipti svo miklu máli upp á hraðann á Evrópusambandsaðildarumsókninni að Svíar voru í forsæti ESB. Nú er komið nýtt hljóð í strokkinn, nú er verið að tala um að líklega fái Íslendingar að greiða atkvæði um samning árið 2013.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór yfir það í löngu máli að þetta væri stutt ferli, líklega stysta ferli sem nokkurt ríki hefði eytt í samningaviðræður. En ég minni þingmanninn jafnframt á að Íslendingar eru aðilar að EES-samningnum og þurfa því ekki að eyða jafnmiklum tíma í ákveðna kafla og aðrar þjóðir.

Ég er með svar til hv. þm. Birgis Ármannssonar frá hæstv. utanríkisráðherra. Það hefði nú verið ágætt að hafa það í skýrslunni þar sem hér er verið að svara spurningum þingmannsins um styrki Evrópusambandsins. Evrópusambandsríki sem eru í umsóknarferli fá styrki. Það kemur fram í svarinu að Tyrkland fái líklega stærstan hluta fjárveitingar Evrópusambandsins 2007–2013, eða 50%. Þetta sýnir okkur að Tyrkland er á fullri ferð inn í Evrópusambandið. Svo kemur síðar í svarinu að Evrópusambandinu hafi borist 37 umsóknir um TAIEX-stuðning. Það er í töflu aftar í svarinu.

Ég spyr þingmanninn: Er ekki einkennilegt að það sem fellur undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skuli (Forseti hringir.) samningshópurinn sjálfur sækja um þegar ráðuneyti Samfylkingarinnar fara (Forseti hringir.) fyrir þessum umsóknum að öðru leyti?